Donald Trump Bandaríkjaforseti segist munu beita hernum til að binda enda á óeirðir og mótmæli sem brotist hafa út í fjölda borga í Bandaríkjunum síðustu daga.
„Í þessum töluðu orðum er ég að kalla út fleiri þúsundir af þungvopnuðum hermönnum, starfsmönnum hersins og löggæsluaðilum til þess að stöðva óeirðirnar, ránin, skemmdarverkin, árásirnar og eignaspjöllin,“ sagði Trump meðal annars í ávarpi í Rósagarði Hvíta hússins í kvöld.
New York Times sagði frá því eftir blaðamannafundinn að Trump hefði fyrirskipað útkall herlögreglu í höfuðborginni Washington. Á blaðamannafundinum sjálfum talaði Trump um að mótmælin væru hryðjuverkastarfsemi á innlendum vettvangi (e. domestic terror).
Þetta var í fyrsta sinn sem Trump ávarpar landsmenn eftir að hörð og blóðug mótmæli brutust út víða um Bandaríkin í kjölfar dauða George Floyd, 46 ára svarts Bandaríkjamanns, sem var myrtur af lögreglu síðasta mánudag fyrir framan verslun í Minneapolis.
Trump hyggst virkja bæði herlið og borgara í landinu til þess að koma böndum á óeirðirnar. Hann segir yfirvöld í nokkrum ríkjum ekki hafa tekist að ná stjórn á ástandinu og tryggja öryggi íbúanna. Því muni hann ekki hika við að senda herlið til þeirra ríkja sem Bandaríkjastjórn telur þörf á.
Útgöngubann tók gildi í höfuðborginni að loknu ávarpi Trumps og sagði hann að því yrði fylgt eftir af hörku. Þúsundir hermanna og lögreglumanna verða sendir á götur borgarinnar.
Trump svaraði engum spurningum fjölmiðlafólks að ávarpinu loknu sem reyndu engu að síður að ná athygli forsetans. Leið hans lá að kirkjunni sem varð fyrir miklum skemmdum í óeirðunum í borginni í nótt.
Fréttin hefur verið uppfærð