Þekktir mannréttindalögfræðingar hafa tekið að sér mál barnsmóður George Floyd, Roxie Williams, og sex ára gamallar dóttur þeirra, Gianna. Floyd var, líkt og flestir ætti að vita, drepinn af lögreglumanni fyrir rúmri viku síðan. Morð sem hefur vakið gríðarlega reiði og mótmæli um allan heim.
Lögmennirnir L. Chris Stewart og Justin Miller fóru til Minneapolis strax í síðustu viku og tóku þátt í mótmælagöngum ásamt stuðningsfólki Floyds.
Stewart hefur tekið að sér mörg þekkt mannréttindamál í gegnum tíðina. Meðal annars mál Walter Scott sem var skotinn til bana af lögreglumanninum Michael Slager í Norður-Charleston. Drápið náðist á myndskeið og að lokum var Slager dæmdur í 20 ára fangelsi og borgaryfirvöld gerðu sátt við fjölskyldu Scott um 6,5 milljónir Bandaríkjadala, sem jafngildir 879 milljónum króna, miskabætur.
Stewart var einnig lögmaður fjölskyldu Gregory Towns sem var drepinn með rafbyssu af lögreglumönnunum Marcus Eberhart og Howard Weems árið 2014. Eberhart var dæmdur fyrir morð og afplánar lífstíðardóm. Weems var dæmdur fyrir að hafa átt óbeina aðild að manndrápi. Sjá nánar hér
Nýverið var Stewart ráðinn sem lögfræðilegur ráðgjafi móður Ahmaud Arbery, Wanda Cooper-Jones, en Arbery var drepinn af feðgunum Greg og Travis McMichael er var úti að skokka.
En hver var George Floyd?
Áður en hann kafnaði til bana var George Floyd að glíma við sama vanda og milljónir Bandaríkjamanna, að leita að vinnu eftir atvinnumissi vegna kórónuveirunnar.
Floyd, sem var 46 ára er hann lést, flutti til Minneapolis frá Houston fyrir nokkrum árum í leit að vinnu og í von um nýtt líf að sögn Christopher Harris sem hefur verið vinur Floyd nánast alla ævina. Þegar samkomubann var sett á í Minnesota missti Floyd vinnu á veitingastað en þar starfaði hann sem dyravörður.
Mánudagskvöldið 26. maí hringdi starfsmaður matvöruverslunar í lögregluna eftir að Floyd reyndi að framvísa fölsuðum 20 dala seðli við kassann. Símamyndskeiðið af handtökunni hefur farið víða um heiminn en þar sést Floyd liggjandi á jörðinni, handjárnaður með hendur fyrir aftan bak á meðan hvítur lögreglumaður, Derek Chauvin, sést þrýsta hné sínu á háls Floyds. Á meðan mínúturnar líða heyrist Floyd grátbiðja um miskunn, hann nái ekki andanum. Myndskeiðinu lýkur á því að bráðaliðar eru að lyfta Floyd, sem er meðvitundarlaus, á sjúkrabörur og koma honum inn í sjúkrabíl.
Fjórir lögreglumenn voru reknir daginn eftir og Chauvin er ákærður fyrir morð. Þremenningarnir sem einnig sjást á myndskeiðinu; J Alexander Kueng, Thomas K. Lane og Tou Thao, hafa ekki verið ákærðir. Lögregla segir að Floyd hafi veitt mótspyrnu við handtökuna en lögmaður Chauvin hefur neitað að tjá sig.
Floyd og Harris félagi hans kynntust í grunnskóla í í hverfi í Houston þar sem flestir íbúanna eru svartir. Þar sem Floyd var tæpir tveir metrar á hæð fékk hann viðurnefnið gentle giant eða góðlátlegi risinn. Hann var afar góður íþróttamaður og keppti bæði í amerískum fótbolta og körfubolta.
Margir gamlir skólafélagar hans minnast Floyd með hlýju og segja að lítið hafi farið fyrir Floyd en reynst öllum vel sem þekktu hann. Floyd lauk ekki námi og var ákærður árið 2007 fyrir vopnað rán við innbrot á heimili í Houston. Árið 2009 var hann dæmdur í fimm ára fangelsi.
Að sögn Harris flutti hann sjálfur til Minneapolis ásamt fleirum félögum þeirra árið 2014 í leit að vinnu. Harris segist hafa talað Floyd inn á að flytja þangað þegar hann lauk afplánun. „Hann vildi byrja upp á nýtt,“ segir Harris og bætir við að vinur hans hafi verið ánægður með þær breytingar sem hann var að gera á lífi sínu.
Floyd fékk fyrst vinnu við öryggisgæslu í verslun Hjálpræðishersins í miðborg Minneapolis en síðar réð hann sig á tvo staði. Annars vegar sem flutningabílstjóri og sem dyravörður á Conga Latin Bistro þar sem hann gekk undir heitinu Big Floyd.
Jovanni Tunstrom, eigandi matsölustaðarins, segir að Floyd hafi alltaf verið í góðu skapi og komið vel fyrir.
Þegar veitingastöðum var lokað vegna COVID-19 missti Floyd vinnuna eins og aðrir og var Harris að aðstoða hann við atvinnuleit. Harris heyrði í honum á sunnudagskvöldinu og ráðlagði honum hvernig væri best að sækja um tímabundna vinnu.
„Hvernig hann dó er glórulaust,“ segir Harris í viðtali við Atlanta News Now. „Hann grátbað fyrir lífi sínu,“ bætir Harris við og segir að á sama tíma og þú leggur allt í sölunnar fyrir kerfið þá veistu á sama tíma að það er ekki hannað með þig í huga. Ef þú leitar löglegra leiða til að fá það sem þér ber þá færðu það ekki. Þetta geri það að verkum að þú tekur lögin í þínar eigin hendur.
Ekki er útilokað að Floyd og Chauvin hafi unnið sem öryggisverðir á sama stað, El Nuevo Rodeo bar, en fyrrverandi samstarfskona þeirra, Maya Santamaria, segir að Chauvin hafi unnið þar á frívöktum en hún viti ekki hvort þeir hafi þekkst. Hún segir Chauvin hafi oft brugðist harkalega við og notað piparúða ítrekað á fólk.
Á mánudagskvöldið var það ekki piparúði heldur hné sem var haldið að hálsi liggjandi manns í 8 mínútur og 46 sekúndur. Eftir tæplega þrjár mínútur hætti Floyd að hreyfa sig og missti greinilega meðvitund. Flestir vita hverjar afleiðingarnar urðu.
Um það bil tveir af hverjum þremur sem hafa fengið þessa sömu meðferð og Floyd af lögreglu í Minneapolis eru svartir þrátt fyrir að aðeins 19% íbúa borgarinnar eru svartir, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Að minnsta kosti 58 misstu meðvitund þegar þrengt var að öndunarvegi þeirra á þennan hátt enda aðferðin bönnuð í mörgum lögregluumdæmum.
Útförin fer fram í Houston
Útför George Floyd fer fram 9. júní í Houston en að sögn fjölskyldu hans verður minningarathöfn haldin í Minneapolis á fimmtudag. Á laugardag verður minningarathöfn haldin í Norður-Karólínu en George Floyd fæddist þar.
Einhverjir lögreglumenn hafa tekið þátt í mótmælunum, kropið á kné, beðið og syrgt í minningu Floyd. Í Atlanta knékrupu lögreglumenn með óeirðarskildi fyrir framan mótmælendur og lögreglustjórinn í Denver faðmaði mótmælendur sem og lögreglustjórinn í New York borg og víðar.
Útgöngubann var sett í 40 borgum Bandaríkjanna og í Los Angeles hefur ekki verið um jafn víðtækt útgöngubann síðan í óeirðunum sem brutust út eftir sýknu lögreglumannsins sem barði Rodney King árið 1992. Í New York þarf að leita aftur til ársins 1943 og kynþáttaóeirða þá í borginni.
Fjölskylda Floyds biðlar til fólks að halda ró sinni og fordæma gripdeildina og ofbeldið sem hafa fylgt mótmælunum.
Atlanta News Now
New York Times
Washington Post
CNN
Sky
Guardian
BBC
Houston Chronicle