Sjötti læknirinn frá Wuhan-spítala látinn

Kona gengur fram hjá veggspjaldi með mynd af forseta Kína, …
Kona gengur fram hjá veggspjaldi með mynd af forseta Kína, Xi Jinping, fyrir utan sjúkrahús í Wuhan. AFP

Læknir frá Wuhan sem starfaði með Li Wenliang, sem sagði kínverskum stjórnvöldum fyrst frá kórónuveirunni, lést af völdum veirunnar í síðustu viku.

Þar með er hann fyrsta manneskjan sem deyr úr COVID-19 í Kína í margar vikur.

Læknirinn Hu Weifeng, sem var þvagfærasérfræðingur við Wuhan-spítalann, lést á föstudaginn eftir að hafa fengið meðferð við COVID-19 og tengdum veikindum í rúma fjóra mánuði. Ríkisfjölmiðillinn CCTV greindi frá þessu.

Hann er sjötti læknirinn frá spítalanum sem deyr af völdum veirunnar, sem braust út í borginni seint á síðasta ári. Greindum tilfellum hefur fækkað mikið síðan þau náðu hámarki um miðjan febrúar og svo virðist sem Kínverjar hafi náð stjórn á útbreiðslunni.

Samanlagt hafa 4.634 látist af hennar völdum en 1,4 milljarðar búa í Kína. Dauðsföllin eru mun færri en þau sem hafa orðið í fámennari löndum. 

Fólk með síma í hendi á lestarstöð í Wuhan.
Fólk með síma í hendi á lestarstöð í Wuhan. AFP

Wuhan-spítalinn, sem hefur ekki gefið út formlega yfirlýsingu vegna dauða Hu, sagði frá því snemma í febrúar að 68 starfsmenn hefðu sýkst af veirunni.

Heilsufar Hu olli miklum áhyggjum hjá kínverskum almenningi eftir að myndir voru sýndar af honum í fjölmiðlum svörtum á hörund vegna lifrarbilunar.

Samstarfsmaður hans, Yi Fan, var með sams konar einkenni en náði bata og hefur síðan þá verið útskrifaður af sjúkrahúsi.

Dauði félaga þeirra Li Wenliang í febrúar olli mikilli sorg og reiði í garð stjórnvalda er hann skrásetti síðustu daga sína á samfélagsmiðlum.

Li, sem var 34 ára augnlæknir, var ávíttur af stjórnvöldum eftir að hann varaði samstarfsmenn sína við veirunni seint í desember.

Síðan þá hefur hann verið sagður píslarvottur af stjórnvöldum, sem hafa þó gert lítið úr þeirri gagnrýni sem kom fram eftir dauða hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert