Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, kveðst reiðubúinn til að bjóða hluta íbúa Hong Kong breskan ríkisborgararétt fari svo að umdeildum þjóðaröryggislögum kínverskra stjórnvalda verði framfylgt. Ef af yrði myndu nær þrjár milljónir íbúa eyjunnar geta sótt sér umræddan ríkisborgararétt, en þar búa um 7,5 milljónir í dag.
Í grein forsetisráðherrans í The Times í morgun kemur fram að umrætt boð væri ein „stærsta breyting“ í sögu vegabréfsáritunarkerfis (e. visa system) Bretlands. Þannig stæði rétt ríflega 2,85 milljónum manna til boða að sækja sér fullgildan ríkisborgararétt í landinu.
Ný umdeild þjóðaröryggislög í Hong Kong voru samþykkt án umræðu á kínverska þinginu í maímánuði. Lögin kveða á um bann við uppreisnaráróðri, landráði og sjálfstæðisumleitunum sjálfstjórnarhéraðsins. Lýðræðissinnar í Hong Kong hafa boðað til mótmæla vegna laganna, jafnt í Hong Kong sem og á alþjóðavettvangi.