Landamæri Ítalíu verða opnuð fyrir evrópskum ferðamönnum í dag eftir að hafa verið lokuð í þrjá mánuði. Ítalía stendur frammi fyrir dýpstu efnahagslægð sem gengið yfir landið frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar og þarf sárlega á erlendum ferðamönnum að halda. Ýmsir óttast að ferðamenn forðist Ítalíu þetta sumarið þar sem hundruð nýrra smita greinast enn á hverjum degi. Einkum í Lombardia, sem er það hérað Ítalíu sem varð verst úti í kórónuveirufaraldrinum.
Alls hafa rúmlega 33 þúsund látist af völdum COVID-19 á Ítalíu en mjög hefur dregið úr smitum þar í landi eftir að gripið var til harðra aðgerða á sviði sóttvarna um miðjan mars.
Alessandra Conti, móttökustjóri Albergo del Senato hótelsins í Róm, segir að þrátt fyrir að vonast til þess að sjá ferðamenn koma þangað strax í þessari viku þá hafi enginn útlenskur ferðamaður bókað gistingu á hótelinu í þessari viku né heldur í næstu viku. Eitthvað er um bókanir frá miðjum júní en afbókanir streymi inn.
Aðeins verður um alþjóðlegt flug að ræða frá þremur borgum á Ítalíu í byrjun. Það er Mílanó, Róm og Napólí. Svissnesk yfirvöld hafa varað landa sína við því að ef þeir fari yfir landamærin til Ítalíu verði þeir að sætta sig við ákveðnar heilbrigðisaðgerðir við komuna heim. Aðeins verði opnað fyrir landamærin við Þýskaland, Frakkland og Austurríki um miðjan júní en ekki Ítalíu.
Austurríki er að aflétta hindrunum á landamærum sínum við Þýskaland, Sviss, Tékkland, Slóvakíu og Ungverjaland 15. júní en ekki Ítalíu. Önnur ríki, svo sem Belgía og Bretland, eru enn með miklar takmarkanir á ferðalögum úr landi.
Þjóðverjar ætla að opna landamæri sín 15. júní án takmarkana fyrir Evrópubúa. Utanríkisráðherra Þýskalands, Heiko Maas, greindi frá þessu í dag. Í dag höfum við ákveðið að ferðaviðvaranir sem hafa verið í gildi til ákveðinna landa verði felldar úr gildi segir Maas og vísar þar til ríkja ESB og ríkja eins og Sviss og Íslands samkvæmt frétt AFP.
Utanríkisráðherra Ítalíu, Luigi Di Maio, varar ríki við að koma ekki fram við Ítalíu eins og hún sé holdsveik. Hann segist ætla að fara til Þýskalands, Slóveníu og Grikklands til þess að sannfæra ráðamenn ríkjanna um að Ítalía sé öruggt land fyrir ferðamenn.
Þeir sem koma til Ítalíu frá ríkjum Evrópu þurfa ekki að fara í sóttkví nema þeir hafi nýlega ferðast til annarra heimsálfa.
Samgöngubann á Ítalíu hefur haft gríðarleg efnahagsleg áhrif en meðal annars hefur sögufrægum stöðum verið lokað, veitingastöðum og hótelum. Undanfarið hefur verið dregið úr hömlum en í Róm er aðeins búið að opna 40 af 1.200 hótelum borgarinnar að nýju og aðeins 12 í Mílanó. Ástæðan er sú að það er of dýrt að halda þeim opnum ef þau standa auð hvort sem er.