„Feginn að hann sé hættur!“

James Mattis og Donald Trump - myndin er tekin í …
James Mattis og Donald Trump - myndin er tekin í október 2017. AFP

Fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, James Mattis, gagnrýnir Donald Trump Bandaríkjaforseta harðlega í grein sem birt var í gær. Segir hann Trump misnota vald sitt og reyna að sundra þjóðinni. Trump var fljótur til svars á Twitter og sagði að sennilega væri það eina sem hann og Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, ættu sameiginlegt — að hafa báðir rekið Mattis úr starfi. 

Mattis segir að sér blöskri hvernig Trump taki á mótmælunum vegna dauða George Floyd í haldi lögreglu. Trump segir að Mattis hafi verið ofmetinn sem herforingi og að hann sé feginn að Mattis hafi hætt sem ráðherra. Mattis sagði af sér árið 2018 eftir að Trump ákvað að kalla bandaríska hermenn heim frá Sýrlandi.

Lítið hefur farið fyrir Mattis síðan þá þangað til greinin birtist í tímaritinu The Atlantic í gær. Í nokkrum Twitter-færslum í gær segist Trump hafa rekið Mattis. „Ég var ekki sáttur við leið hans sem leiðtoga eða nokkuð annað við hann og þar eru margir mér sammála,“ skrifar Trump. „Feginn að hann sé hættur!“

„Donald Trump er fyrsti forsetinn á ævi minni sem reynir ekki að sameina bandarísku þjóðina — sem reynir ekki einu sinni að þykjast,“ skrifar Mattis í The Atlantic. „Þess í stað reynir hann að sundra okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert