Mannréttindi fótum troðin á Filippseyjum

Forseti Filippseyja, Rodrigo Duterte.
Forseti Filippseyja, Rodrigo Duterte. AFP

Mannréttindi hafa verið fótum troðin á Filippseyjum þar sem ofuráhersla er lögð á baráttuna gegn ólöglegum vímuefnum og ógnanir gegn þjóðaröryggi.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna. Þar kemur fram að meðal alvarlegra brota stjórnvalda á Filippseyjum eru morð, gerræðislegar handtökur og alvarleg brot á borgaralegum réttindum. Skýrslan er unnin að beiðni mannréttindaráðs SÞ en í júlí 2019 samþykkti mann­rétt­indaráðið að frum­kvæði Íslands að óska eft­ir skýrslu um Fil­ipps­eyj­ar frá mann­rétt­inda­full­trúa Sam­einuðu þjóðanna.

Í skýrslunni er fjallað um víðtækar og skipulagðar aftökur á fólki sem er grunað um fíkniefnabrot. Eins hefur margt baráttufólk fyrir mannréttindum verið drepið á Filippseyjum á síðustu fimm árum. 

 Á sama tíma hafa verið stigin mikilvæg skref í mannréttindamálum, ekki síst hvað varðar efnahags- og félagsleg réttindi. Ofuráhersla hefur verið lögð á ógnir á sviði þjóðaröryggis hvort sem þær eru raunverulegar eður ei og hefur þetta leitt til alvarlegra mannréttindabrota.

Talan gæti verið allt að þrisvar sinnum hærri

Frá því stjórnvöld á Filippseyjum hófu herferð gegn ólöglegum fíkniefnum árið 2016 hafa að minnsta kosti 8.663 einstaklingar verið drepnir ef marka má opinberar tölur. Ýmsir telja að talan sé mun hærri og jafnvel þrefalt hærri. 

Gögn Mannréttindaskrifstofunnar sýna að á tímabilinu 2015-2019 hafi 248 einstaklingar hið minnsta verið drepnir í tengslum við störf sín a sviði baráttu fyrir mannréttindum, lögfræðingar, blaðamenn og verkalýðsforkólfar.

Þeir sem bera ábyrgð á morðunum hafa notið refsileysi að mestu þar sem aðeins einn hefur verið dæmdur fyrir morð en það var í lögregluaðgerð um mitt ár 2016. Sú aðgerð tengdist baráttunni gegn fíkniefnum og var gerð á vegum lögreglunnar. 

Skýrsluhöfundar skoðuðu húsleitir og fleiri aðgerður lögreglunnar á tímabilinu ágúst 2016, en Rodrigo Roa Duterte tók við embætti forseta Filippseyja í lok júní það sama ár, til loka júní 2017. Á þessu tímabili fór lögreglan í Manila ítrekað í húsleitir á heimilum fólks án heimildar og í einhverjum tilvikum var fölsuðum heimildum framvísað við húsleitina. 25 slíkar aðgerðir kostuðu 45 lífið í höfuðborginni Manilla á tímabilinu ágúst 2016 til júní 2017. 

Skýrslan í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka