„Flestar rannsóknir benda til þess að svörtum Bandaríkjamönnum sé mismunað í öllu kerfinu, ekki bara í aðgerðum lögreglu, sem er ekki hægt að skýra að fullu með hærri tíðni afbrota á meðal svartra.“ Þetta segir Margrét Valdimarsdóttir, lektor í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri og doktor í afbrotafræði.
Hörð og blóðug mótmæli hafa farið fram víða í Bandaríkjunum síðustu vikuna í kjölfar dauða George Floyds, 46 ára svarts Bandaríkjamanns, sem lést þegar lögregluþjónn kraup á hálsi hans í 8 mínútur og 46 sekúndur með þeim afleiðingum að hann kafnaði.
Lögreglumaðurinn Derek Chauvin, sá sem kraup á hálsi Floyds, var upprunalega ákærður fyrir morð af þriðju gráðu. Ákæran var þó hert í vikunni og hefur hann nú verið ákærður fyrir morð af annarri gráðu, en í því felst ásetningur án þess þó að morðið sé að yfirlögðu ráði. Þá hafa hinir þrír lögreglumennirnir sem voru á vettvangi verið handteknir og munu þeir verða ákærðir.
Margrét segir það alltaf reynast erfitt að sýna fram á ásetning fyrir dómstólum.
„Það er mjög erfitt að sanna ásetning og það verður það líka í þessu máli,“ segir Margrét, en mótmælendur hafa meðal annars vakið athygli á því að í fjölmörgum sambærilegum málum hefur ákæra ekki verið gefin út og að í þeim málum sem lögregluþjónn hefur verið ákærður er viðkomandi oft sýknaður.
Margrét segir mótmælin eiga sér djúpar rætur.
„Það er í rauninni verið að mótmæla mismunun lögreglu gagnvart svörtu fólki. Ástæðan fyrir því að þetta verður svona stórt núna tel ég vera, að umfjöllun um kynþáttafordóma innan lögreglunnar og mismunun í réttarkerfinu sem leiðir til þess að svartir séu frekar handteknir og dæmdir, hefur verið svo mikil á síðustu árum, það eru svo mörg mál sem hafa komið upp og þetta er eitt mál af mörgum þar sem hefur komið fram myndband þar sem hvítur lögregluþjónn sést drepa svartan mann. Svart fólk, og Bandaríkjamenn yfirhöfuð, upplifa mikið óréttlæti og að það sé hreinlega hættulegt, sérstaklega fyrir unga, svarta menn, að eiga í nokkrum samskiptum við lögreglu,“ segir Margrét.
Fólk hafi verið reitt vegna ástandsins lengi og dauði Floyds var síðasta hálmstráið.
„Svo verður þetta kannski ýktara núna vegna þess að Trump er forseti og hann hefur verið að ýta undir reiði fólks sem hefur haft áhyggjur af mismunun, þar sem hann hefur orðið uppvís að rasískum ummælum, og fólk upplifir það að það búi í landi þar sem forsetinn er í raun og veru rasisti. Svo kannski hefur COVID-19 líka áhrif, fólk hefur verið undir álagi, atvinnuleysi hefur aukist. Það eru margir þættir sem gætu hafa ýtt undir það að þetta sé svona rosalega stórt núna. En kveikjan er auðvitað þetta skýra myndband, þar sem fólk úti á götu er að biðla til lögreglumannsins um að taka hnéð af hálsinum á honum, að hann geti ekki andað, hann segir það sjálfur í myndbandinu, að hann geti ekki andað. Þetta er fólk að sjá og því ofbýður.“
Margrét segir að mismunun í bandarísku réttarkerfi hafi þó ekki verið að aukast, heldur sé fólk meðvitaðra um ástandið.
„Það hefur auðvitað verið fjallað um kynþáttafordóma og mismunun í bandarísku réttarkerfi í mjög langan tíma. Það bendir ekkert til að mismunun í bandarísku réttarkerfi sé að aukast, en fólk er orðið meira meðvitað um það. Fyrir svarta Bandaríkjamenn, sérstaklega þá sem hafa alist upp í fátækari hverfum, þá hafa margir upplifað ótta við lögreglu allt sitt líf. Fólk hefur upplifað að lögreglan mismuni þeim, að lögreglan komi fram á ákveðin hátt því það er svart. Þetta var í rauninni dropinn sem fyllti mælinn,“ segir Margrét.
„Hvítt fólk í Bandaríkjunum hræðist lögregluna einfaldlega mun síður en svart fólk. Þeir upplifa að lögreglan sé að þjóna þeim og vernda, sem allir ættu að gera. En svart fólk er miklu líklegra til að óttast lögregluna og lögreglan er líklegri til upplifa svart fólk meira ógnandi en hvítt.“
Þá segir hún mismunun gagnvart svörtu fólki vera í öllu réttarkerfinu, ekki aðeins í starfi lögreglu.
„Það er rannsókn eftir rannsókn sem benda til þess að mismunun innan réttarkerfisins sé raunveruleg, þetta er ekki bara upplifun, myndbönd eða fyrirsagnir í fréttum heldur sýna tölurnar þetta. Það eru hlutfallslega fleiri svartir sem eru handteknir, eru dæmdir og fá lengri dóma,“ segir Margrét.
„Það hefur líka verið gagnrýnt að til þess að lögregla geti stöðvað einhvern, þarf að vera til staðar það sem kallað er réttlætanlegur grunur. Lögreglan sjálf metur hvað sé réttlætanlegur grunur og það getur auðvitað verið þannig að staðalímyndir um svart fólk hafi áhrif á þennan grun. Er það grunsamleg hegðun að þú klæðir þig í svarta hettupeysu og setur á þig hettuna? Lögreglan getur þannig skilgreint grunsemdir út frá því hvernig fólk klæðir sig,“ segir Margrét, en fjölmörg tilfelli þess að lögregluþjónar valdi dauða svarts einstaklings hafa gerst þegar lögregla stöðvar viðkomandi vegna þess sem lögreglan skilgreinir hverju sinni vera réttlætanlegan grun.
Þá bendir Margrét á að afbrotatíðni svartra sé ekki í samræmi við fjölda svartra einstaklinga í fangelsum.
„Það sem kemur svo oft upp í þessari umræðu er að svartir fremji fleiri glæpi í Bandaríkjunum og þess vegna sé svart fólk „hættulegra“ og því sé réttlætanlegt að lögreglan beiti meira valdi gegn svörtu fólki og að það sé frekar handtekið. Þegar þessu er haldið fram er oftast litið til fjölda fólks í fangelsum og skiptingu eftir kynþáttum. En ef lögreglan einblínir frekar á svart fólk en hvítt fólk, handtekur svart fólk frekar, auðvitað munum við sjá hærri afbrotatíðni hjá svörtum. Ef maður notar aðrar leiðir til að skoða afbrotatíðni meðal hópa en lögregluskýrslur, þá sér maður að í sumum brotaflokkum er raunverulega hærri tíðni meðal svartra, en sú tíðni er ekki nógu há til að réttlæta hversu miklu hærri hlutfall svartra er í fangelsum og handtökum.“
Þá bendir Margrét á að svart fólk sé líklegra til að ganga að sátt og viðurkenna brot, þrátt fyrir sakleysi.
„Réttarkerfið í Bandaríkjunum er bara með þeim hætti að það getur verið skynsamlegra fyrir fólk í bágri stöðu að játa á sig minni háttar brot, og vera þá sleppt strax, heldur en að neita og þurfa að eyða tíma í fangageymslu eða fangelsi á meðan málið er í ferli. Það að geta ekki borgað lausnargjald eða leitað sér lagalegrar aðstoðar setur fólk í vonda stöðu. Þetta leiðir til þess að fólk sem býr við bága félags- og efnahagsstöðu er líklegra til að vera á sakaskrá, óháð því hvort það er raunverulega að brjóta meira af sér. Fyrri brot, sem sagt sakarskráin, hafa áhrif á hvernig lögreglan bregst við þegar fólk er stöðvað, hvort fólk fái dóm, og hversu langur sá dómur er. Þetta er dæmi um hvernig kerfið mismunar fólki í bágri stöðu, sem er enn í dag oftar svartir einstaklingar en hvítir,“ segir Margrét.