Frá upphafi kórónuveirufaraldursins hefur eftirspurn eftir efni þar sem börn eru beitt kynferðisofbeldi aukist um 30% í einhverjum ríkjum ESB, segir Ylva Johansson sem fer með innanríkismál í framkvæmdastjórn sambandsins.
Evrópusambandið mun fljótlega kynna nýjar aðgerðir í baráttunni gegn kynferðisofbeldi gagnvart börnum í ríkjum sambandsins. Ástæðan er mikil aukning eftirspurnar eftir ólöglegu efni á netinu í samkomubanninu vegna kórónuveirunnar. Efni þar sem brotið er gagnvart börnum og ungmennum.
Ylva Johansson greindi frá þessu í viðtali við þýska dagblaðið Die Welt í dag. Hún segist vilja leiða hertar refsiaðgerðir gagnvart barnaníðingum og koma á nánara samstarfi við samfélagsmiðlafyrirtækin.
Johansson segir að aðgerðaáætlunin verði kynnt fljótlega en meðal annars verði sett á laggirnar ný miðstöð hjá ESB þar sem aðildarríkin geta leitað eftir aðstoð í baráttunni gegn barnaníði. Eins vill hún að refsingar verði hertar gagnvart barnaníðingum.
Sérfræðingar hafa ítrekað varað við afleiðingum þess að börn hafi þurft að dvelja heima allan sólarhringinn, í sumum tilvikum lokuð inni með þeim sem beita þau ofbeldi án þess að geta óskað eftir hjálp utanaðkomandi.
Eins að milljónir barna eyða mun meiri tíma á netinu en áður og eru þar í meiri hættu á misnotkun af hálfu barnaníðinga á netinu. Þetta kom berlega í ljós í gær þegar þýska lögreglan greindi frá því að hún hefði handtekið ellefu einstaklinga sem eru grunaðir um að tilheyra barnaníðshring. Fólkið er grunað um að hafa tekið upp myndskeið af níðingsverkum gagnvart börnum.
Lögreglan lagði hald á harða diska sem innihéldu gríðarlegt magn (500 terabæt) af myndskeiðum og myndum þar sem börn eru beitt ofbeldi í kjallara sumarhúss eins þeirra. Lögreglan hefur borið kennsl á þrjú fórnarlambanna á myndunum en þau eru 5, 10 og 12 ára gömul.