Fæst látinn laus gegn einni milljón dala

Alda mótmæla hefur farið um Bandaríkin og víðar eftir morðið …
Alda mótmæla hefur farið um Bandaríkin og víðar eftir morðið sem átti sér stað í Minneapolis. AFP

Lögreglumaðurinn Derek Chauvin, sem ákærður hefur verið fyrir að myrða George Floyd, fæst aðeins látinn laus úr varðhaldi gegn tryggingu upp á eina milljón Bandaríkjadala.

Svo úrskurðaði héraðsdómarinn í Hennepin-sýslu nú síðdegis, en hann lét einnig þau skilyrði fylgja fyrir lausn Chauvins að hann myndi afsala sér vopnum sínum, ekki starfa við lög- eða öryggisgæslu, og ekki hafa samband við fjölskyldu Floyds.

Hins vegar bauð hann upp á að Chauvin yrði látinn laus gegn 1,25 milljóna dala tryggingu og þá án nokkurra annarra skilyrða.

Mótmælt var fyrir utan skrifstofur Hennepin-sýslu í dag.
Mótmælt var fyrir utan skrifstofur Hennepin-sýslu í dag. AFP

Leggja niður lögreglu borgarinnar

Úrskurðurinn fellur daginn eftir að borgarráð Minneapolis-borgar, þar sem morðið átti sér stað, kaus að leggja niður lögreglu borgarinnar og reisa hana á nýjum grunni.

Chauvin, sem er 44 ára, er ákærður fyrir manndráp og morð af annarri og þriðju gráðu. Verði hann fundinn sekur gæti hann horft fram á áratugalanga fangelsisvist. Starfi sínu hefur hann gegnt í um nítján ár.

Þrír aðrir lögreglumenn komu fyrir dóm í síðustu viku og sæta þeir ákærum fyrir að hafa átt þátt í morðinu á Floyd.

Allir hafa þeir fjórir verið reknir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert