Michael O‘ Leary, forstjóri írska lággjaldaflugfélagsins Ryanair, segir að nýjar reglur þar sem komufarþegum til Bretlands er gert að fara í sóttkví í tvær vikur muni valda ferðamannaiðnaðinum ómældum skaða.
Reglurnar eru settar til að reyna að koma í veg fyrir aðra bylgju kórónuveirufaraldursins en O‘ Leary segir þær óskynsamlegar og illa rökstuddar.
„Þetta mun valda eyðileggingu, ekki bara fyrir flugfélögin heldur breska ferðamannaiðnaðinn í heild sinni,“ sagði forstjórinn.
Hann sagði júlí og ágúst lykilmánuði í að koma ferðaþjónustu og öllu sem henni tengist aftur á lappirnar í Bretlandi. Þessar aðgerðir stjórnvalda gætu hins vegar þýtt að fjöldi fólks missi vinnuna.
„Allt út af heimskulegri, gagnslausri einangrun.“