Breskir stjórnmálamenn hafa fordæmt eyðileggingu styttu af þekktum þrælasala meðan á mótmælum stóð gegn kynþáttamisrétti. Ríkisstofnunin Historic England segir enga þörf á því að endurreisa styttuna.
Mótmælendur rifu niður bronsstyttuna, sem er fimm og hálfs metra há, í ensku borginni Bristol og vörpuðu henni í höfnina. Styttan er af Edward Colston sem var þrælasali á nítjándu öld.
Priti Patel, innanríkisráðherra Bretlands, sagði athæfið vera skammarlegt og einn af ráðherrum hennar, Kit Malthouse, sagði að leggja ætti fram kærur. „Glæpur var framinn, glæpsamlegt skemmdarverk var framið, safna ætti saman sönnunargögnum sem ættu að leiða til ákæru,“ sagði hann við BBC í morgun.
Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins sem er stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, sagði „algjörlega rangt“ að taka niður styttuna á þennan hátt. Hann bætti þó við að fjarlægja hefði átt styttuna „fyrir löngu síðan“ og flytja á safn.
„Þessi maður bar ábyrgð á því að um 100 þúsund manns voru flutt frá Afríku til Karíbahafs sem þrælar, þar á meðal konur og börn sem voru brennimerkt á brjóstkassann með nafni fyrirtækisins sem hann rak,“ sagði hann við útvarpið LBC.
Marvin Reees, sem á föður frá Jamíka, sagðist búast við því að styttan muni enda á safni, ásamt borðum frá mótmælunum á sunnudaginn. „Ég get ekki látið sem þetta hafi ekki haft áhrif á mig persónulega að hafa hana í miðri Bristol, borginni þar sem ég ólst upp,“ sagði hann við BBC.
Ríkisstofnunin Historic England, sem sér um að vernda sögufrægar byggingar og minnisvarða, sagði að samfélagið í Bristol verði að ákveða hvað skuli gera við styttuna en „við teljum ekki að það þurfi að endurreisa hana“.
„Það hefur lengi verið rifist yfir styttunni af Edward Colston í Bristol vegna aðildar hans að þrælasölunni,“ sagði stofnunin. „Við gerum okkur grein fyrir því að styttan var táknmynd óréttlætis og uppspretta mikils sársauka fyrir fjölmarga.“