Vinnupallar fjarlægðir við Notre-Dame

Undirbúningurinn er í fullum gangi.
Undirbúningurinn er í fullum gangi. AFP

Starfsmenn við dómkirkjuna Notre-Dame í París hófu í morgun undirbúning við að fjarlægja mörg tonn af vinnupöllum sem bráðnuðu saman í eldsvoðanum mikla í kirkjunni á síðasta ári.

Aðgerðin er ein sú áhættumesta til þessa í tengslum við endurbyggingu kirkjunnar.

Um 40 þúsund málmstangir bráðnuðu saman í eldsvoðanum. Nauðsynlegt er að fjarlægja vinnupallana án þess að skemma veggi kirkjunnar enn frekar.

AFP

„Þegar búið er að þessu verður léttirinn mikill vegna þess að þá hefur dómkirkjunni verið bjargað,“ sagði Christophe Rousselot, yfirmaður góðgerðarsamtakanna Fondation Notre-Dame, sem hafa umsjón með söfnun peninga fyrir kirkjuna.

„Hlutar vinnupallanna gætu dottið niður og skemmt hluta af veggjunum,“ sagði hann og lýsti verkinu sem „afar flóknu sem felur í sér töluverða áhættu“.

AFP

Notast var við lyftu í morgun vegna lokamats á framkvæmdunum. Síðar í þessari viku verða starfsmenn látnir síga niður í reipum til að saga í sundur vinnupallana. Búist er við því að verkefnið standi yfir í allt sumar, að sögn Rousselot.

Vinnupöllunum var komið fyrir vegna viðgerða á kirkjunni áður en eldurinn kviknaði 15. apríl í fyrra, að kvöldi til.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert