Morðið á George Floyd í Minneapolis í Bandaríkjunum hefur ekki bara hrundið af stað öflugri bylgju mótmæla þar sem þess er krafist að lát verði á ofbeldi lögreglu gegn svörtum og öðrum minnihlutahópum í landinu. Aldrei áður hefur baráttan náð jafn miklu flugi utan Bandaríkjanna eins og sást vel á Austurvelli í síðustu viku og hið sama hefur verið raunin víða um heim. Í grunnin er krafan að útrýma rasisma. Einföld og sanngjörn krafa sem flestir ættu að eiga auðvelt með að taka undir. Þó virðast nokkrar úreldar raddir malda í móinn af óskiljanlegum ástæðum.
Kynþáttahyggjan náði hámarki í þrælaversluninni og nú er sjónum beint að minnisvörðum sem hylla menn sem högnuðust á verslun með þræla. Í Bristol rifu mótmælendur niður styttu af Edward Colston og hentu í höfnina en hann hafði verið þrælasali á átjándu öld og stórefnast á kaupum og sölu á fólki frá Afríku sem var flutt yfir Atlantshafið til að vinna á plantekrum í Karabíska hafinu og í Bandaríkjunum.
Styttan hafði verið reist árið 1895 til heiðurs Colston sem hafði verið umsvifamikill í borginni og studdi margskonar góðgerðarstarfsemi, þó að á eigin forsendum hafi verið. Frá því á tíunda áratug síðustu aldar hafði verið hávær krafa um að fjarlægja styttuna vegna þáttar Colstons í þrælasölunni enda eiga margir Bretar uppruna á stöðum á borð við Jamaíku.
Í Antwerpen í Belgíu var styttan af Leópold öðrum hífð niður til jarðar eftir að hafa verið ötuð í málningu af mótmælendum og ekki fyrsta skipti en konungurinn var miskunnarlaus þegar Belgía fór með yfirráð í nokkrum Afríkuríkjum. Haft var eftir talsmanni borgarstjórans í borginni að ekki væri líklegt að hún yrði sett upp að nýju.
Leópold annar hagnaðist persónulega mikið á sölu fílabeins og á gúmmíi frá Kongó sem var stjórnað með miklu harðræði. Skilaði fólk ekki af sér tilætluðu magni af gúmmíi átti það von á að missa útlimi. Skipti þá engu um hvort fullorðna menn, konur eða börn var að ræða. Pyntingar og morð einkenndu stjórn Leópolds og tölur um dauðsföll eru taldar vera í kringum 10 milljónir. Það er því ekki að ósekju sem fólk vill ekki horfa á styttuna af honum.
Í Bandaríkjunum hefur einnig verið gerð krafa um að taka niður styttur afsem minna á þrælahald. Í síðustu viku skipaði Ralph Northam, ríkisstjóri í Virginíu, að stytta af Robert E. Lee, hershöfðingja í Suðurríkjasambandinu í þrælastríðinu, yrði tekin af stalli sínum. Málið er þó komið á ís þar sem að dómari setti 10 daga lögbann á fjarlæginguna eftir að William C. Gregory kærði tilskipun ríkisstjórans.
Í síðustu viku var minnisvarði um Suðurríkjahermenn tekið niður í Alexandríu í fylkinu en Northam er demókrati og hefur látið hafa eftir sér að mikilvægt sé að taka niður minnisvarða sem kljúfa bandarísku þjóðina. Þrælastríðið eða bandaríska borgarastyrjöldin var háð frá árunum 1861-1865 þar sem ellefu ríki Bandaríkjanna vildu kljúfa sig frá Bandaríkjunum og var þrælahald eitt helsta ágreiningsefnið.