Oftast spurður hvort hann hefði drepið einhvern

Nýbökuð hjón á brúðkaupsdaginn 6. nóvember 2018. Eydís og Robinson …
Nýbökuð hjón á brúðkaupsdaginn 6. nóvember 2018. Eydís og Robinson hafa marga fjöruna sopið, þó á mjög ólíkum vettvangi, hún hagfræðiprófessor og hann fyrrverandi hermaður og lögreglustjóri í Camden-sýslu í New Jersey. Bæði lumuðu á skemmtilegum sögum þótt tilefni viðtalsins væri ekki það skemmtilegasta. Ljósmynd/Aðsend

„Við þurfum að fara að sjá róttækar breytingar á hugsanagangi fólks, þetta hefur gengið á svo lengi, öll saga svartra Bandaríkjamanna fram á þennan dag tengist einhvers konar kúgun og mismunun,“ segir Larry Wilson Robinson, gjarnan betur þekktur sem LW Robinson, 69 ára gamall fyrrverandi lögreglustjóri í Camden-sýslu í New Jersey í Bandaríkjunum, í samtali við mbl.is um nýlega atburði þar í landi þaðan sem umræðan um kynþáttafordóma og lögregluofbeldi hefur breiðst um gervalla heimsbyggðina síðan George Floyd lést í höndum lögreglu 25. maí.

„Ég var í lögreglunni í 23 ár, kom þaðan úr hernum, við sem höfðum gegnt herþjónustu áttum greiða leið í lögregluna vegna þeirrar þjálfunar sem við höfðum hlotið,“ segir Robinson sem gegndi herþjónustu við herstöð í Mojave-eyðimörkinni í Kaliforníu árabilið 1974 – '77 og fór aldrei í stríð.

Glæpamenn sóttu í herinn

„Þetta var nú bara einn besti tími sem ég hef lifað,“ rifjar lögreglustjórinn fyrrverandi upp. „Hitinn á daginn var ógurlegur en næturnar ískaldar, æfingar voru þrotlausar en þó ágæt frí inn á milli. Á þessum tíma sóttu glæpamenn mikið í herinn til að komast frá samfélaginu. Það er auðvitað gjörbreytt núna og allt aðrar kröfur gerðar til þeirra sem ganga til herþjónustu í Bandaríkjunum,“ segir Robinson til að taka af öll tvímæli.

Samhliða lögreglustörfum uppfræddi Robinson ungviðið, kenndi svokallað DARE í framhaldsskólum, Drug and Alcohol Resistance Education, áfengis- og fíkniefnafræðslu fyrir þá sem landið skyldu erfa. „Algengasta spurningin sem ég fékk þar var að sjálfsögðu hvort ég hefði drepið einhvern. „Svarið var alltaf það sama, nei, guði sé lof, en litlu mátti muna,“ segir Robinson sem blessunarlega komst hjá því að skjóta nokkra manneskju sín 23 ár í lögreglunni. Þjónustuskammbyssunni brá hann hins vegar á loft oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, en lengra náði það ekki.

„Þetta snýst um fræðslu og menntun, bandaríska lögreglan þarf að vera upplýstari, trúðu mér, býsna margir lögreglumenn styðjast við þá grunnreglu að lumbra fyrst á hinum handtekna og spyrja spurninga á eftir, því fékk ég oft að kynnast sem yfirmaður í lögreglunni,“ segir Robinson.

Metorðastiginn brattur

„Ég er svartur, það þýðir að metorðastiginn hjá mér í lögreglunni var býsna brattur. Ég komst í lögreglustjórastöðu af því að ég hafði reynslu og góð meðmæli úr hernum. Ég notaði líka aðra nálgun en margir í lögreglustarfinu, ég fór ávallt þá leið að tala við fólk, byrjaði á mjúku nótunum og þetta kunni fólk flest vel að meta. Innan míns umdæmis var til dæmis Camden City í New Jersey þar sem er ein hæsta glæpatíðni á austurströnd Bandaríkjanna,“ segir Robinson og kastar svo fram sögu.

Kista George Floyds við útför hans í Houston í Texas …
Kista George Floyds við útför hans í Houston í Texas í dag. Andlát blökkumannsins í höndum hvítra lögreglumanna í Minneapolis hefur sent höggbylgju um gervallan heiminn á fáum dögum. AFP

„Maður lenti auðvitað í ótrúlegasta rugli á ferlinum, einu sinni starfaði ég sem skilorðsfulltrúi [e. parole officer] og fékk brotamenn sem höfðu fengið skilorðsdóma í regluleg viðtöl. Þau snerust um að fylgja því eftir að fólk væri í vinnu, sem var skilyrði, og að það væri edrú. Og það var nú ekki alltaf,“ segir hann og hlær.

„Einu sinni kom ein inn á skrifstofuna hjá okkur og dró þar upp byssu. Hún var þá komin til að skjóta skilorðsfulltrúann sinn og var mikið niðri fyrir,“ segir Robinson og afslappaður frásagnarhátturinn fær þennan atburð til að hljóma eins og daglegt brauð. „Ég var staddur baka til á skrifstofunni þegar allt starfsfólkið kom hlaupandi til mín felmtri slegið og sagði „þú verður að gera eitthvað, þú ert lögga!“ og við svona aðstæður tekur eitthvert mænuviðbragð bara við, þú verður að gera eitthvað,“ segir Robinson. „Ég var óvopnaður og gerði í rauninni það eina sem ég gat gert, ég kom henni á óvart. Ég hljóp bara á hana og reif af henni byssuna, hún reiknaði ekki með að nokkur væri svo brjálaður og fraus bara. Hún fór svo auðvitað beint í fangelsi,“ segir hann um eftirmálana.

„Við verðum að breyta þessu“

„En alla vega, þetta mál núna, George Floyd, vekur upp margar eldri og slæmar minningar. Þessu verður að ljúka, það gengur ekki að lögreglan myrði fólk ítrekað í handtökum sem snúast um mál sem oft lyki bara með einfaldri sekt. Við verðum að breyta þessu, við verðum að breyta hugsunarhættinum og kynþáttahatur og afleiðingar þess þarf að verða mun ríkari þáttur í menntun lögreglufólks hér í landinu. Ofan á allt annað erum við með sitjandi forseta núna sem hjálpar síst í þessum efnum,“ segir LW Robinson, fyrrverandi hermaður og lögreglustjóri á eftirlaunum.

„Einu sinni kom ein inn á skrifstofuna hjá okkur og …
„Einu sinni kom ein inn á skrifstofuna hjá okkur og dró þar upp byssu. Hún var þá komin til að skjóta skilorðsfulltrúann sinn og var mikið niðri fyrir,“ segir Robinson sem er lunkinn frásagnamaður og hefur frá mörgu að segja af löngum ferli. Ljósmynd/Aðsend

Eiginkona Robinsons er hin íslensk-norska Eydís Olsen-Robinson, sem rekur ætt sína að hálfu leyti til Stavanger í Noregi, en föðurafi hennar var Kristinn Olsen, flugstjóri og einn stofnenda Loftleiða, og faðir hennar Eðvarð Olsen, lögregluvarðstjóri í Reykjavík til tæpra tveggja áratuga. Eydís er prófessor og doktor í alþjóðlegri stjórnmálahagfræði við Drexel-háskólann í Philadelphia en menntuð í höfuðborginni Washington. Hún hefur verið búsett í Bandaríkjunum frá árinu 1988 og búa þau hjónin nú í Lawnside í New Jersey, rólegum smábæ. „Ég byrjaði nú fyrst hérna í Bandaríkjunum sem au-pair og svo ílengdist maður bara,“ segir prófessorinn sem er 53 ára og því nokkur aldursmunur á þeim hjónum, 16 ár.

Kom á námsmanna-visa

„Núna er bara allt búið að snúast um rasisma og tengd málefni,“ segir Eydís og vísar til síðustu daga, tímans eftir víg George Floyds sem líklega hefur valdið mestu kynþáttatengdum óeirðum í heiminum síðan lögreglumennirnir sem veittust að Rodney King voru sýknaðir fyrir tæpum þremur áratugum og Los Angeles logaði stafna á milli, ásamt fleiri borgum.

„Ég þekki vel raunveruleika útlendinga hér, sem meðal annarra eru skotspónn kynþáttahaturs, þegar ég flutti frá Íslandi og hóf hér nám umgekkst ég mest erlenda nemendur [annarra þjóða en Bandaríkjanna sem sagt], þetta er bara eins hér og svo víða annars staðar, fólk sem lítur öðruvísi út og tilheyrir annarri menningu á undir högg að sækja,“ segir Eydís sem á sínum tíma rann eins og bráðið smjör inn á bandarískan vinnumarkað sem mörgum hefur þó verið torsóttur.

Mótmælendur koma skoðunum sínum á framfæri við minnismerkið um Abraham …
Mótmælendur koma skoðunum sínum á framfæri við minnismerkið um Abraham Lincoln Bandaríkjaforseta í Washington DC, „Honest Abe“ eins og hann var oft kallaður og þótti mikill tilsvarameistari svo sem er hann sat á tröppum Hvíta hússins og pússaði skó sína á sjöunda áratugi 19. aldar. Maður nokkur spurði forsetann þá hvort hann pússaði sína eigin skó og Lincoln svaraði: „Já auðvitað, hvers annars skó ætti ég að pússa?“ AFP

„Ég kom hérna á námsmanna-visa [vegabréfsáritun] og svo leiddi bara eitt af öðru, ég er auðvitað menntuð hér og tala málið reiprennandi og er núna „permanent resident“ eins og það heitir,“ segir hún frá.

Sorglega langt í land

Eydís segir ástandið í Bandaríkjunum síðustu daga hafa fengið verulega á þau hjónin sem á sínum tíma kynntust í Philadelphia. „Auðvitað hefur verið stóraukin umræða síðustu ár um „diversity“, æ, hvað heitir það aftur á íslensku?“ spyr Íslendingurinn sem varið hefur síðustu 32 árum fjarri fósturjarðar ströndum og er bjargað um hugtakið fjölbreytileiki frá blaðamanni, „en mér finnst þetta samt alltaf eiga alveg sorglega langt í land, fordómarnir sem eru svo ríkir í stórum hluta bandarísku þjóðarinnar,“ segir prófessorinn að skilnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert