Þúsundir votta Floyd virðingu

Útför George Floyds fer fram í Houston í Texas klukkan ellefu að staðartíma, eða klukkan 16 að íslenskum tíma. Floyd ólst upp í Houston en undanfarna daga hafa verið haldnar nokkrar minningarathafnir, meðal annars í í Raeford í Norður-Karólínu þar sem hann fædd­ist og í Minn­ea­pol­is þar sem hann lést í haldi lögreglu 25. maí eftir að lögreglumaður kraup á hálsi hans. 

Almenningi gafst kostur á að votta Floyd virðingu sína á torgi fyrir utan kirkju í borginni í gærkvöld. Þúsundir lögðu leið sína að kistunni, gerðu krossmark eða krupu fyrir framan hana. Dauði Floyds hefur orðið kveikjan að hörðum mótmælum þar sem kynþáttafordómum og mis­mun­un lög­reglu gagn­vart svörtu fólki ber hæst þó ræturnar nái mun dýpra. Mótmælt hefur verið daglega frá dauða Floyds en mótmælin í Washington um helgina voru líklega þau mestu í Banda­ríkj­un­um frá því Martin Luther King var myrt­ur árið 1968 þegar hann var á Hót­el Lorraine í Memp­his í Tenn­esse.

„Þetta sameinar okkur sem þjóð,“ segir Kevin Sherrod, sem vottaði Floyd virðingu sína í gær. Synir hans voru með í för sem Sherrod segir mikilvægt. „Þetta er sögulegt stund og þeir eru hluti af henni.“

Útför George Floyds fer fram í Houston í dag. Fjölmargar …
Útför George Floyds fer fram í Houston í dag. Fjölmargar minningarathafnir hafa verið haldnar síðustu daga, meðal annars í Los Angeles í gær. AFP

Tveir þriðju telja dauða Floyds merki um dýpri vanda innan lögreglunnar

Yfirgnæfandi stuðningur er við mótmæli síðustu daga meðal Bandaríkjamanna samkvæmt könnun sem Washington Post lét framkvæma. 

Mót­mæl­in eru senni­lega eitt erfiðasta verk­efnið sem Don­ald Trump hef­ur staðið frammi fyr­ir í for­setatíð sinni. Hann for­dæmdi drápið á Floyd en hef­ur samt sýnt hörku gagn­vart mót­mæl­end­um, kallað þá óþokka og hryðju­verka­menn og eins hef­ur hann verið sakaður um að ýta und­ir vax­andi spennu. 61% svarenda könnunar Post segjast vera óánægð með viðbrögð forsetans síðustu daga en 35% eru hlynnt hvernig hann hefur brugðist við. 

Á sama tíma telja 69% svarenda drápið á Floyd mega rekja til dýpri vanda innan bandarískrar löggæslu en 29% telja að um stakt tilvik sé að ræða. 

Útför Floyds fer fram síðar í dag sem fyrr segir og verður Joe Biden, forsetaframbjóðandi demókrata, á meðal viðstaddra. Hann flaug til Houston í gær og hitti fjölskyldu Floyds. Floyd verður jarðsettur við hlið móður sinnar í kirkjugarði í borginni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka