„Urðu heimskari á einni viku“

Yfirvöld í Tíról hafa statt og stöðugt haldið því fram …
Yfirvöld í Tíról hafa statt og stöðugt haldið því fram að rétt hafi verið brugðist við þegar vart varð við kórónuveirusmit á skíðasvæðum sambandslandsins. AFP

Austurrísk neytendasamtök hafa sent formlega kvörtun til saksóknara fjár- og spillingarmála og farið fram á að sjálfstæð rannsókn fari fram á viðbrögðum yfirvalda í Tíról við kórónuveirusmitum á svæðinu.

Yfirvöld í Tíról hafa statt og stöðugt haldið því fram að rétt hafi verið brugðist við þegar vart varð við kórónuveirusmit á skíðasvæðum sambandslandsins. Þessu er Peter Kolba, stofnandi og formaður neytendasamtakanna ósammála.

Samkvæmt tilkynningu samtakanna, þar sem fram kemur að alvarlegar athugasemdir við viðbrögð yfirvalda í Tíról hafi verið gerðar í formlegri kvörtun til saksóknara, er þrennt sérstaklega dregið fram sem stærstu mistökin sem gerð hafi verið í Ischgl, einum vinsælasta skíðabæ sambandslandsins.

Í fyrsta lagi segir að skíðatímabilinu hefði átt að ljúka viku fyrr en raunin varð, eða 7. mars. Þannig hefði verið hægt að koma í veg fyrir þúsundir smita og þar sem að legið hafi fyrir að Íslendingar hefðu smitast á svæðinu frá 3. mars hefðu yfirvöld átt að bregðast við hratt og örugglega.

Misjöfn viðbrögð við fyrstu smitum

Í öðru lagi eru athugasemdir gerðar við mismunandi viðbrögð yfirvalda við fyrstu staðfestu kórónuveirusmitunum á svæðinu. Fyrsta tilfellið kom upp í Innsbruck 25. febrúar, en þá var, að sögn neytendasamtakanna, hárrétt brugðist við, en hótelinu þar sem smitið kom upp var lokað og sýni tekin hjá öllu starfsfólki. Einni og hálfri viku síðar greindist barþjónn á Aprés-skíðabarnum í Ischgl með kórónuveiruna. Sömu yfirvöld fyrirskipuðu að öllu starfsfólki yrði skipt út og öll svæði sótthreinsuð, en sögðu að mjög lítlar líkur væru á smiti manna á milli.

„Annaðhvort urðu yfirvöld heimskari á einni viku, sem ég held ekki, eða þá að þrýstingur frá ferðaþjónustunni hafi leitt til þessara ólíku viðbragða,“ er haft eftir Kolba í tilkynningunni.

Hefðu átt að setja alla í sóttkví

Í þriðja lagi segir að rýmingaráætlun svæðisins hafi einkennst af óreiðu og algjöru skeytingarleysi gagnvart sóttkví fólks sem hafði verið í Paznaun-dalnum. Áður en samkomu- og ferðatakmarkanir voru settar á í Austurríki sendu hótel- og veitingahúsaeigendur starfsfólk sitt heim með hraði, auk þess sem austurrískum gestum var, þvert á tilskipun stjórnvalda, leyft að fara heim til sín, en samkvæmt tilkynningunni má rekja 56% allra smita í Austurríki til Ischgl. Þá hafi erlendir gestir skíðasvæðanna ferðast til síns heima um alla Evrópu og tekið kórónuveiruna með sér.

„Annaðhvort sýnir Austurríki heiminum fram á að við getum tekist á við þennan ófögnuð hratt og örugglega og saksóknari tekur við rannsókn málsins, eða hún fer fram erlendis,“ segir Kolba, og nefnir þar sem möguleika rannsókn Evrópusambandsins eða hópmálsókn bandarískra ríkisborgara á hendur yfirvöldum í Tíról.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert