„Viðurstyggileg“ skilaboð Trump

Al Sharpton, prestur og baráttumaður fyrir réttindum þeldökkra Bandaríkjamanna, sakaði Donald Trump Bandaríkjaforseta um að senda „viðurstyggileg“ skilaboð til lögreglumanna í Bandaríkjunum í kjölfar þess að George Floyd var drepinn af einum slíkum.

Sharpton talaði í útför George Floyd sem fór fram í Houston í Texas fyrr í dag. Sagði hann að aðgerðir og orðræða Trump síðan Floyd var drepinn, þar sem forsetinn hefur talað niður mótmæli gegn lögregluofbeldi í stað þess að taka afstöðu gegn því, sendi þau skilaboð til lögreglumanna að þeir væru ofar lögum.

Trump lýsti því yfir í byrjun mánaðar að hann hygðist beita hernum til að binda endi á mótmæli sem brutust út í fjölda borga eftir að myndbandið af Derek Chauvin drepa Floyd fór sem eldur í sinu um samfélagsmiðla.

Barátta gegn kerfisbundnu vandamáli

„Skilaboðin sem er verið að senda út segja að ef þú ert í löggæslu, þá gilda lögin ekki um þig,“ sagði Sharpton. Þá sakaði hann Trump um að „leggja á ráðin“ hvernig hægt væri að snúa taflinu sér í hag í stað þess að reyna að ná fram réttlæti.

„Við erum ekki að berjast gegn afmörkuðum tilvikum. Við erum að berjast gegn kerfisbundnu vandamáli sem hefur gegnumsýrt samfélag okkar síðan við komum hingað,“ sagði hann og vísaði til þess þegar fólk var sótt til Afríku og það gert að þrælum í Bandaríkjunum.

Presturinn Al Sharpton gagnrýndi Donald Trump harðlega.
Presturinn Al Sharpton gagnrýndi Donald Trump harðlega. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert