Bandaríkin opna ræðismannsskrifstofu á Grænlandi

Nuuk á Grænlandi.
Nuuk á Grænlandi. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Bandaríkin hafa opnað ræðismannsskrifstofu í Nuuk á Grænlandi.

Bandaríska sendiráðið í Kaupmannahöfn greindi frá þessu í dag, tæpu ári eftir að dönsk stjórnvöld létu sem vind um eyru þjóta áhuga Donalds Trump Bandaríkjaforseta á að kaupa Grænland.

„Ræðismannsskrifstofan er annað jákvætt merki um sterkt samstarf á milli bandarísku ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórna Grænlands og Danmerkur,“ sagði bandaríski sendiherrann Carla Sands, sem starfar í Danmörku. 

Washington fékk grænt ljós frá Kaupmannahöfn í desember síðastliðnum til að opna ræðismannsskrifstofuna.

Í lok apríl sagðist Grænland hafa samþykkt efnahagsaðstoð upp á 12,1 milljón dollara frá bandarískum stjórnvöldum sem átti að tengjast námuvinnslu, ferðamennsku og menntun í landinu.

Síðustu ræðismannsskrifstofu Bandaríkjanna í Nuuk var lokað árið 1953. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert