Lögregla sem rannsakar hvarf tveggja barna í Idaho í fyrra telur sig hafa fundið líkamsleifar á heimili núverandi eiginmanns móður þeirra. Réttarmeinarannsókn hefur ekki farið fram en móðir barnanna var handtekin í tengslum við hvarf þeirra í febrúar.
Joshua Vallow var sjö ára og systir hans, Tylee Ryan, 17 ára þegar þau hurfu í september. Móðir þeirra, Lori Daybell, var handtekin á Hawaii en líkamsleifarnar fundust á heimili Chad Daybell fyrir stuttu. Hann er nú í haldi lögreglu, samkvæmt frétt CNN.
Daybell er rithöfundur og hefur skrifað nokkrar heimsendabækur sem byggja lauslega á trúarkennslu mormóna. Hann og Lori hafa verið þátttakendur í trúarhópi sem er að búa sig undir heimsendi. Samtökin, Preparing A People, neita því að vera sértrúarhópur, að því er segir í frétt BBC.
Þar kemur fram að þrjú grunsamleg dauðsföll tengist einnig hvarfi systkinanna.
Lori flutti til Idaho frá Arizona í lok ágúst 2019 eftir að eiginmaður hennar, Charles Vallow, var skotinn til bana af bróður hennar (Lori) Alex Cox.
Cox sagði að um sjálfsvörn hafi verið að ræða en hann (Cox) lést af óútskýrðum ástæðum í desember.
Í nóvember höfðu föðurafi og amma annars barnsins samband við lögreglu og báðu hana um að kanna heimili barnnanna í Rexburg, Idaho. Að sögn lögreglu komst hún að því síðar að ekkert hafði sést til barnanna, Joshua Vallow og Tyglee Ryan, í einhverja mánuði.
Yfirvöld segja að Lori Daybell hafi ítrekað orðið missaga og logið til um hvar börnin væru og jafnvel hvort þau hafi nokkurn tíma verið til þegar var við hana af lögreglu. Hún lét sig síðan hverfa daginn eftir. Lögreglan leitaði í kjölfarið í geymsluhúsnæði í nágrenninu og fann þar bæði fatnað og leikföng sem reyndust í eigu barnanna.
Samkvæmt skilnaðarpappírum sem þáverandi eiginmaður hennar, Charles Vallow, ritaði áður en hann lést telur Lori Daybell að hún sé verkfæri Guðs og eigi að framkvæma ýmis verk fyrir hann áður en Kristur stígur til jarðar á ný í júlí 2020.
Eins að hún hafi hótað að drepa hann ef hann reyndi að stöðva hana. Hún hefði engil sér til aðstoðar sem myndi koma líkinu fyrir. Í kjölfarið óskaði hann eftir vernd að því er fram kemur í dómsskjölum.
Lori Daybell gekk í hjónaband með Chad Daybell í október en þá voru aðeins tvær vikur liðnar frá andláti eiginkonu Chad Daybell, Tammy.
Samkvæmt dánartilkynningu lést Tammy Daybell af eðlilegum orsökum en lögregla hefur farið fram á að ný réttarmeinarannsókn fari fram.