Biðst afsökunar á að hafa gengið með Trump

Mark Milley sér mikið eftir því að hafa tekið þátt …
Mark Milley sér mikið eftir því að hafa tekið þátt í gjörningnum. AFP

Hershöfðinginn Mark Milley hefur beðiðst afsökunar á því að hafa tekið þátt í að ganga með Donald Trump Bandaríkjaforseta og fylgdarliði yfir Lafayette-stræti að St. John’s kirkjunni þar sem forsetinn stillti sér upp með biblíu og lét taka myndir af sér.

Atvikið átti sér stað 1. júní eftir að Trump flutti ávarp í Rósargarðinum fyrir framan Hvíta húsið. Fjöldi friðsamra mótmælenda var á götum í kringum Hvíta húsið á meðan ávarpi forsetans stóð en nokkrum mínútum áður en því lauk var lögreglunni, með stuðningi hersins, gert að rýma Lafayette-stræti – sem hún gerði með miklum látum.

Piparúða og gúmmíkúlum beitt gegn mótmælendum

Mótmælendum var ýtt, þeim hrint frá, piparúði var notaður á þá og gúmmíkúlum skotið að þeim. Tilgangurinn var ekki ljós fyrr en síðar, þ.e. þegar Trump gekk að kirkjunni, sem var þá alveg auð.

Atvikið var harðlega gagnrýnt og þótti mönnum það óverjanlegt að ganga svo hart fram gegn friðsamlegum mótmælendum til þess að forsetinn gæti gengið áóreittur að kirkjunni fyrir myndatöku.

Nú hefur Milley beðist afsökunar á sinni aðkomu að þessu öllu saman og segist ekki hafa átt að vera þarna. Nærveru hans hefði mátt skilja sem svo að herinn væri að beita sér innanland í pólitískum tilgangi. „Þetta voru mistök sem ég hef lært af,“ segir hann í myndskeiði.

Það sem Trump sagði í ávarpinu var ekki síður gagnrýnt en hann sagðist mundu beita hernum gegn mótmælendum. „Í þess­um töluðu orðum er ég að kalla út fleiri þúsund­ir af þung­vopnuðum her­mönn­um, starfs­mönn­um hers­ins og lög­gæsluaðilum til þess að stöðva óeirðirn­ar, rán­in, skemmd­ar­verk­in, árás­irn­ar og eigna­spjöll­in,“ sagði Trump meðal annars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert