Henda handjárnum í jörðina í mótmælaskyni

Reiði gætir meðal franska lögreglumanna sem segja það ekki rétt …
Reiði gætir meðal franska lögreglumanna sem segja það ekki rétt að lögregluofbeldi og kynþáttafordómar viðgangist innan lögreglunnar. AFP

Lögreglumenn í Frakklandi eru ósáttir við gagnrýni í garð frönsku lögreglunnar hvað varðar lögregluofbeldi og hafa brugðist við með því að grípa sjálfir til mótmæla, meðal annars með því að henda handjárnum sínum í jörðina. 

Reiði gætir meðal franska lögreglumanna sem segja það ekki rétt að lögregluofbeldi og kynþáttafordómar viðgangist innan lögreglunnar. Franska lögreglan er sömuleiðis ósátt við að yfirvöld þar í landi hafi bannað svokallað kyrkingatak, líkt og gert hefur verið í nokkrum borgum í Bandaríkjunum í kjölfar dauða George Floyds. 

Christophe Castaner, innanríkisráðherra Frakklands, greindi frá banninu á mánudag í kjölfar samstöðumótmæla sem blásið var til í Frakklandi þar sem kynþáttafordómum og ofbeldi lögreglu gegn svörtum var mótmælt. 

Í kjölfarið hafa nokkur frönsk mál verið rifjuð upp, til að mynda þegar Adama Traoré, 24 ára svartur Frakki, lést í aðgerðum lögreglu árið 2016. Þá hefur lögreglan einnig verið gagnrýnd fyrir að særa 14 ára dreng alvarlega í síðasta mánuði, en hann var grunaður um að hafa stolið hlaupahjóli í París. 

Franska lögreglan efndi til eigin mótmæla í gær, m.a. í París, Lille, Rennes, Bordeaux og Toulouse og héldu mótmælin áfram í morgun á Orly-flugvellinum þar sem lögreglumenn röðuðu sér upp, settu handjárn sín á jörðina og sungu franska þjóðsönginn. 

Lögreglumaðurinn Xavier Leveau varði kyrkingatakið sem franska lögreglan notar í samtali við fréttamann AFP-fréttastofunnar þar sem hann segir það mikilvægan hluta við handtöku. „Við erum ekki að fara að halda honum niðri í átta mínútur, heldur rétt á meðan handtökunni stendur. Við höfum ekki aðra tækni, hvað eigum við að gera í dag?“ 

Leveau segir lögregluna reiða vegna þeirra ásakana sem hún hefur orðið fyrir í kjölfar mótmælaöldunnar í Bandaríkjunum sem breiðst hefur víða um heim. „Fólk heldur að kynþáttafordómar viðgangist innan lögreglunnar en í okkar landi er fólk af fjölbreyttum uppruna og við vinnum öll vel saman.“

Franska lögreglan efndi til eigin mótmæla í gær, m.a. í …
Franska lögreglan efndi til eigin mótmæla í gær, m.a. í París, Lille, Rennes, Bordeaux og Toulouse og héldu mótmælin áfram í morgun á Orly-flugvellinum þar sem lögreglumenn röðuðu sér upp, settu handjárn sín á jörðina og sungu franska þjóðsönginn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert