Reynt að þagga niður í Ressa

00:00
00:00

Maria Ressa, sem er einn þekkt­asti og virt­asti blaðamaður Fil­ipps­eyja, var í dag fund­in sek um að hafa birt ærumeiðing­ar á net­inu og á yfir höfði sér allt að sex ára fang­elsi. Ressa var meðal fyr­ir­les­ara á Heimsþingi kvenna í Hörpu í nóv­em­ber. Málið þykir að sögn eft­ir­litsaðila til marks um hættu­lega þróun und­ir for­sæti Rodrigo Duterte þar sem vegið er að frelsi fjöl­miðla.

Dóm­ur­inn var kveðinn upp í Manila af dóm­ar­an­um Rainelda Estacio-Montesa. Afar fáir voru viðstadd­ir dóms­upp­kvaðning­una vegna kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins. Ressa er rit­stjóri vef­rits­ins Rappler en hún og fyrr­ver­andi starfsmaður þess, Reyn­aldo Santos Jr, voru ákærð árið 2017 fyr­ir meiðyrði á vef Rappler og var ritið einnig ákært. 

Vef­ritið Rappler var ekki talið sekt en bæði Ressa og Santos voru fund­in sek. Þau hafa verið dæmd til að greiða háar fjár­hæðir í sekt en málið þykir dæmi um til­raun stjórn­valda á Fil­ipps­eyj­um til að þagga niður í fjöl­miðlum. Upp­haf þess má rekja til kvört­un­ar kaup­sýslu­manns yfir frétt sem var skrifuð og birt á Rappler fyr­ir fimm árum um meint tengsl hans við dóm­ara við æðsta dóm­stól lands­ins á þeim tíma. 

Á blaðamanna­fundi í morg­un þar sem til­kynnt var um niður­stöðu dóms­ins hét Ressa því að halda bar­átt­unni áfram. „Frelsi fjöl­miðla er horn­steinn allra þeirra rétt­inda sem þú hef­ur sem fil­ipps­eysk­ur þegn,“ sagði Ressa á fund­in­um og bætti við að ef þau rétt­indi yrðu fót­um troðin sé ekk­ert hægt að gera. 

Maria Ressa, blaðamaður frá Filippseyjum, kom til Íslands í nóvember.
Maria Ressa, blaðamaður frá Fil­ipps­eyj­um, kom til Íslands í nóv­em­ber. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Amal Cloo­ney, lögmaður hjá Doug­hty Street Cham­bers í London, leiðir alþjóðlegt teymi lög­manna sem verja Ressa. Hún seg­ir dóm­stól­inn vera sam­sek­an í óhugn­an­leg­um aðgerðum sem miði að því að þagga niður í blaðamönn­um fyr­ir að upp­lýsa um spill­ingu og mis­notk­un. Dóm­ur­inn sé aðför að lýðræðinu á Fil­ipps­eyj­um. 

Cloo­ney seg­ist von­ast til þess að Banda­rík­in taki af­stöðu og verndi Ressa sem er með bæði með rík­is­borg­ara­rétt á Fil­ipps­eyj­um og Banda­ríkj­un­um.

Á yfir höfði sér 100 ára fang­elsis­vist

Málið er aðeins eitt af mörg­um dóms­mál­um gegn Ressa og Rappler sem eru í gangi á Fil­ipps­eyj­um en Ressa og Rappler hafa upp­lýst um alls kon­ar skugga­hliðar stjórn­ar for­seta lands­ins, Rodrigo Duterte. Til að mynda af­tök­ur án dóms og laga, morð og mis­notk­un. Flest­ar ásak­an­ir gegn Ressa snúa að fjár­mögn­um frétta­vefjar­ins og ef hún verður fund­in sek um öll brot­in á hún yfir höfði sér að minnsta kosti 100 ára fang­els­is­dóm.

Amal Clooney er einn þekktasti mannréttindalögmaður heims.
Amal Cloo­ney er einn þekkt­asti mann­rétt­inda­lögmaður heims. AFP

Þegar Ressa var hand­tek­in og ákærð fyr­ir ærumeiðing­ar á net­inu í fe­brú­ar 2019 var það harðlega gagn­rýnt af mann­réttt­inda­sam­tök­um um all­an heim og mann­rétt­indaráð Sam­einuðu þjóðanna varaði við þess­ari þróun mála og ógn­un­um sem sjálf­stæðir fjöl­miðlar stæðu frammi fyr­ir á Fil­ipps­eyj­um. Duterte neit­ar því aft­ur á móti að póli­tík eigi hlut að máli og seg­ir Rappler flytja lyga­f­rétt­ir og sak­ar miðil­inn um upp­lýs­inga­óreiðu. Rappler hef­ur birt frétta­skýr­ing­ar þar sem upp­lýst er um spill­ingu meðal ann­ars hjá hern­um og í bar­áttu stjórn­valda gegn fíkni­efn­um. 

Við mun­um berj­ast á móti hvers kyns árás­um á frelsi fjöl­miðla, seg­ir Ressa. „Ég hóf störf sem fréttamaður árið 1986 og ég hef starfað í mörg­um lönd­um heims­ins. Ég hef verið skot­in og mér hótað,“ seg­ir Ressa eft­ir að niðurstaðan lá fyr­ir í morg­un. 

Þær voru í pallborði á heimsþingi kvenleiðtoga í Hörpu í …
Þær voru í pall­borði á heimsþingi kven­leiðtoga í Hörpu í nóv­em­ber. Efri röð: Maria Ressa, Elaine Quijano, Barri Raffer­ty, Lor­en Mayor og Courtenay Myers. Neðri röð: Marsha Cooke og Christy Tanner. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Árið 2012 stofnaði hún ásamt þrem­ur starfs­systr­um sín­um net­fréttamiðil­inn Rappler og auk frétta­skrifa er Rappler fram­ar­lega í bar­átt­unni gegn fölsk­um frétt­um og upp­lýs­inga­óreiðu á sam­fé­lags­miðlum. Rappler sér meðal ann­ars um staðreynda­at­hug­un fyr­ir Face­book á Fil­ipps­eyj­um í bar­átt­unni gegn fölsk­um frétt­um.

AFP

Ressa er meðal þeirra blaðamanna sem voru maður árs­ins 2018 að mati Time-tíma­rits­ins. Hún hef­ur auk þess hlotið fjöl­mörg verðlaun í blaðamennsku í gegn­um tíðina.

Am­nesty In­ternati­onal hef­ur sent frá sér yf­ir­lýs­ingu vegna dóms­ins og þar kem­ur fram að ástæðan fyr­ir dómn­um sé gagn­rýni Ressa og starfs­manna Rappler á störf stjórn­ar Duterte. „Með þess­ari síðustu árás á sjálf­stæða fjöl­miðla er staða mann­rétt­inda á Fil­ipps­eyj­um í frjálsu falli.“

Hum­an Rights Watch seg­ir að málið endurómi al­var­lega stöðu frels­is fjöl­miðla ekki bara á Fil­ipps­eyj­um held­ur víðar.  

Ekki er nema rúm­ur mánuður síðan eft­ir­lit­stofn­an­ir stjórn­valda neyddu vin­sæl­ustu sjón­varps­stöð lands­ins, ABS-CBN, til að hætta starf­semi. Bæði Rappler og ABS-CBN hafa ít­rekað birt frétt­ir af aðgerðum lög­reglu í fíkni­efna­stríðinu þar sem sölu­menn eru skotn­ir til bana án þess að vera leidd­ir fyr­ir dóm. 

Rappler greindi frá því að kaup­sýslumaður­inn Wilfredo Keng hefði látið dóm­ar­an­um Renato Corona í té sport­bíl og að Keng tengd­ist ólög­leg­um fíkni­efnaviðskipt­um, man­sali og morði.

Alls bíða Ressa sjö ákær­ur, þar á meðal ásak­an­ir um skattaund­an­skot. Hún hef­ur neitað þeim öll­um og seg­ir að ákær­urn­ar séu liður í ófræg­ing­ar­her­ferð rík­is­stjórn­ar Duterte í þeirri von að þagga niður í gagn­rýnni rödd Rappler.

Þegar til­kynnt var um að ABS-CBN yrði gert að hætta starf­semi sagði Ressa að þetta væri sam­bæri­legt og ef banda­rísk stjórn­völd myndu þagga niður í CBS eða CNN á landsvísu en í sum­um héruðum Fil­ipps­eyja er ABS-CBN eina frétta­stöðin sem næst.

Eitt af því sem Duterte sak­ar Rappler um er að ritið sé fjár­magnað af leyniþjón­ustu Banda­ríkj­anna, CIA. Þessu neita Ressa og út­gáfu­fé­lagið. Einn helsti blaðamaður Rappler, Pia Ran­ada, fær ekki leng­ur að vera viðstödd op­in­ber­ar at­hafn­ir á veg­um for­seta­embætt­is­ins.

Talsmaður Duterte, Harry Roque, sagði í morg­un að fjöl­miðlar ættu að virða niður­stöðu dóms­ins. Að for­set­inn hafi aldrei höfðað mál gegn blaðamönn­um þrátt fyr­ir nei­kvæðan frétta­flutn­ing þeirra. „Hann trú­ir á mál­frelsið og að ekki þýði að vera hör­unds­ár ef þú starf­ir  við stjórn rík­is.“

Byggt á frétt Guar­di­an, AFP/Rappler, BBC, New York Times, CNN

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert