Reynt að þagga niður í Ressa

Maria Ressa, sem er einn þekktasti og virtasti blaðamaður Filippseyja, var í dag fundin sek um að hafa birt ærumeiðingar á netinu og á yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi. Ressa var meðal fyrirlesara á Heimsþingi kvenna í Hörpu í nóvember. Málið þykir að sögn eftirlitsaðila til marks um hættulega þróun undir forsæti Rodrigo Duterte þar sem vegið er að frelsi fjölmiðla.

Dómurinn var kveðinn upp í Manila af dómaranum Rainelda Estacio-Montesa. Afar fáir voru viðstaddir dómsuppkvaðninguna vegna kórónuveirufaraldursins. Ressa er ritstjóri vefritsins Rappler en hún og fyrrverandi starfsmaður þess, Reynaldo Santos Jr, voru ákærð árið 2017 fyrir meiðyrði á vef Rappler og var ritið einnig ákært. 

Vefritið Rappler var ekki talið sekt en bæði Ressa og Santos voru fundin sek. Þau hafa verið dæmd til að greiða háar fjárhæðir í sekt en málið þykir dæmi um tilraun stjórnvalda á Filippseyjum til að þagga niður í fjölmiðlum. Upphaf þess má rekja til kvörtunar kaupsýslumanns yfir frétt sem var skrifuð og birt á Rappler fyrir fimm árum um meint tengsl hans við dómara við æðsta dómstól landsins á þeim tíma. 

Á blaðamannafundi í morgun þar sem tilkynnt var um niðurstöðu dómsins hét Ressa því að halda baráttunni áfram. „Frelsi fjölmiðla er hornsteinn allra þeirra réttinda sem þú hefur sem filippseyskur þegn,“ sagði Ressa á fundinum og bætti við að ef þau réttindi yrðu fótum troðin sé ekkert hægt að gera. 

Maria Ressa, blaðamaður frá Filippseyjum, kom til Íslands í nóvember.
Maria Ressa, blaðamaður frá Filippseyjum, kom til Íslands í nóvember. mbl.is/Kristinn Magnússon

Amal Clooney, lögmaður hjá Doughty Street Chambers í London, leiðir alþjóðlegt teymi lögmanna sem verja Ressa. Hún segir dómstólinn vera samsekan í óhugnanlegum aðgerðum sem miði að því að þagga niður í blaðamönnum fyrir að upplýsa um spillingu og misnotkun. Dómurinn sé aðför að lýðræðinu á Filippseyjum. 

Clooney segist vonast til þess að Bandaríkin taki afstöðu og verndi Ressa sem er með bæði með ríkisborgararétt á Filippseyjum og Bandaríkjunum.

Á yfir höfði sér 100 ára fangelsisvist

Málið er aðeins eitt af mörgum dómsmálum gegn Ressa og Rappler sem eru í gangi á Filippseyjum en Ressa og Rappler hafa upplýst um alls konar skuggahliðar stjórnar forseta landsins, Rodrigo Duterte. Til að mynda aftökur án dóms og laga, morð og misnotkun. Flestar ásakanir gegn Ressa snúa að fjármögnum fréttavefjarins og ef hún verður fundin sek um öll brotin á hún yfir höfði sér að minnsta kosti 100 ára fangelsisdóm.

Amal Clooney er einn þekktasti mannréttindalögmaður heims.
Amal Clooney er einn þekktasti mannréttindalögmaður heims. AFP

Þegar Ressa var handtekin og ákærð fyrir ærumeiðingar á netinu í febrúar 2019 var það harðlega gagnrýnt af mannrétttindasamtökum um allan heim og mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna varaði við þessari þróun mála og ógnunum sem sjálfstæðir fjölmiðlar stæðu frammi fyrir á Filippseyjum. Duterte neitar því aftur á móti að pólitík eigi hlut að máli og segir Rappler flytja lygafréttir og sakar miðilinn um upplýsingaóreiðu. Rappler hefur birt fréttaskýringar þar sem upplýst er um spillingu meðal annars hjá hernum og í baráttu stjórnvalda gegn fíkniefnum. 

Við munum berjast á móti hvers kyns árásum á frelsi fjölmiðla, segir Ressa. „Ég hóf störf sem fréttamaður árið 1986 og ég hef starfað í mörgum löndum heimsins. Ég hef verið skotin og mér hótað,“ segir Ressa eftir að niðurstaðan lá fyrir í morgun. 

Þær voru í pallborði á heimsþingi kvenleiðtoga í Hörpu í …
Þær voru í pallborði á heimsþingi kvenleiðtoga í Hörpu í nóvember. Efri röð: Maria Ressa, Elaine Quijano, Barri Rafferty, Loren Mayor og Courtenay Myers. Neðri röð: Marsha Cooke og Christy Tanner. mbl.is/Kristinn Magnússon

Árið 2012 stofnaði hún ásamt þrem­ur starfs­systr­um sín­um net­fréttamiðil­inn Rappler og auk frétta­skrifa er Rappler framar­lega í bar­átt­unni gegn fölsk­um frétt­um og upp­lýs­inga­óreiðu á sam­fé­lags­miðlum. Rappler sér meðal ann­ars um staðreynda­at­hug­un fyr­ir Face­book á Filippseyjum í bar­átt­unni gegn fölsk­um frétt­um.

AFP

Ressa er meðal þeirra blaðamanna sem voru maður árs­ins 2018 að mati Time-tíma­rits­ins. Hún hef­ur auk þess hlotið fjöl­mörg verðlaun í blaðamennsku í gegn­um tíðina.

Amnesty International hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna dómsins og þar kemur fram að ástæðan fyrir dómnum sé gagnrýni Ressa og starfsmanna Rappler á störf stjórnar Duterte. „Með þessari síðustu árás á sjálfstæða fjölmiðla er staða mannréttinda á Filippseyjum í frjálsu falli.“

Human Rights Watch segir að málið endurómi alvarlega stöðu frelsis fjölmiðla ekki bara á Filippseyjum heldur víðar.  

Ekki er nema rúmur mánuður síðan eftirlitstofnanir stjórnvalda neyddu vinsælustu sjónvarpsstöð landsins, ABS-CBN, til að hætta starfsemi. Bæði Rappler og ABS-CBN hafa ítrekað birt fréttir af aðgerðum lögreglu í fíkniefnastríðinu þar sem sölumenn eru skotnir til bana án þess að vera leiddir fyrir dóm. 

Rappler greindi frá því að kaupsýslumaðurinn Wilfredo Keng hefði látið dómaranum Renato Corona í té sportbíl og að Keng tengdist ólöglegum fíkniefnaviðskiptum, mansali og morði.

Alls bíða Ressa sjö ákærur, þar á meðal ásakanir um skattaundanskot. Hún hefur neitað þeim öllum og segir að ákærurnar séu liður í ófrægingarherferð ríkisstjórnar Duterte í þeirri von að þagga niður í gagnrýnni rödd Rappler.

Þegar tilkynnt var um að ABS-CBN yrði gert að hætta starfsemi sagði Ressa að þetta væri sambærilegt og ef bandarísk stjórnvöld myndu þagga niður í CBS eða CNN á landsvísu en í sumum héruðum Filippseyja er ABS-CBN eina fréttastöðin sem næst.

Eitt af því sem Duterte sakar Rappler um er að ritið sé fjármagnað af leyniþjónustu Bandaríkjanna, CIA. Þessu neita Ressa og útgáfufélagið. Einn helsti blaðamaður Rappler, Pia Ranada, fær ekki lengur að vera viðstödd opinberar athafnir á vegum forsetaembættisins.

Talsmaður Duterte, Harry Roque, sagði í morgun að fjölmiðlar ættu að virða niðurstöðu dómsins. Að forsetinn hafi aldrei höfðað mál gegn blaðamönnum þrátt fyrir neikvæðan fréttaflutning þeirra. „Hann trúir á málfrelsið og að ekki þýði að vera hörundsár ef þú starfir  við stjórn ríkis.“

Byggt á frétt Guardian, AFP/Rappler, BBC, New York Times, CNN

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert