Ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta hefur beðið alríkisdómara um að fyrirskipa fyrrum þjóðaröryggisráðgjafanum John Bolton að stöðva útgáfu væntanlegrar bókar sinnar um starfstíma sinn í Hvíta húsinu. Rökin sem gefin eru fyrir fyrirskipuninni í málsókn á hendur Bolton eru þau að hann hafi brotið gegn samningi og að Bolton taki áhættu á að afhjúpa leynilegar upplýsingar með útgáfu bókarinnar.
Í málsókninni, sem var lögð fram í alríkisdómstólnum í Washington DC í dag, er fullyrt að 500 blaðsíður í bókinni eða fleiri séu „fullar af leynilegum upplýsingum“. Þá segja saksóknarar að Bolton hafi snúið bakinu við sérstöku ferli Hvíta hússins vegna bókarinnar sem honum hafi verið skylt að ganga í gegn um á grundvelli samninga sem hann skrifaði undir.
„Bolton skrifaði undir samkomulag við Bandaríkin sem skilyrði fyrir ráðningu sinni í eina viðkvæmustu og mikilvægustu þjóðaröryggisstöðu í Bandaríkastjórn og ætlar sér nú að rifta því samkomulagi með því að taka einhliða ákvörðun um að ferli endurskoðunar á útgáfunni sé lokið og ákveður sjálfur hvort gera eigi leynilegar upplýsingar aðgengilegar almenningi,“ skrifa saksóknarar.
Málsóknin er nýjasta útspil Hvíta hússins gegn Bolton eftir viðræður sem hafa staðið í fleiri mánuði á milli þjóðaröryggisráðsins og talsmanna Boltons um það hvort bókin hafi að geyma leynilegar upplýsingar.
Útgáfufyrirtækið Simon & Schuster hefur áður tilkynnt að bók Boltons, Í herberginu þar sem það gerðist: Endurminningar úr Hvíta húsinu, verði gefin út næstkomandi þriðjudag 23. júní. Bók Boltons hefur nú þegar verið send í vöruhús og hefur Bolton boðað sig í viðtal við sjónvarpsstöðina ABC sem á að fara í loftið næsta sunnudag.
Heimildarmaður CNN sem stendur Bolton nærri segir að Bolton ætli sér að gefa bókina út á þriðjudag eins og áætlað er. Það þýðir að hann reikni með að takast á við afleiðingar útgáfunnar í kjölfar hennar, ekki fyrir fram.