Tvö ný kórónuveirusmit hafa greinst á Nýja-Sjálandi og eru það fyrstu smitin sem greinast í 24 daga. Fyrir rúmlega viku var því lýst yfir að ekkert virkt smit væri í landinu og það laust við veiruna.
Smitin greindust í tveimur konum úr sömu fjölskyldunni en þær höfðu fengið sérstakt leyfi til að ferðast til Nýja-Sjálands frá Bretlandi til að vera viðstaddar útför foreldris þeirra. BBC greinir frá.
Þjóðerni þeirra er ekki vitað eins og er en þær flugu frá Bretlandi til Doha í Katar og þaðan til Brisbane áður en þær lentu á Nýja-Sjálandi 7. júní. Þær voru í sóttkví á hóteli eftir komuna en fengu að heimsækja foreldri sitt 12. júní, sem lést síðar um kvöldið.
Öllum hömlum og takmörkunum til að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar var aflétt á Nýja-Sjálandi í 7. júní. Mikið eftirlit hefur þó verið við landamæri þar sem einungis innfæddir og framlínustarfsmenn hafa fengið inngöngu fyrir utan þá einstaklinga sem fá sérstakar undanþágur.
Önnur konan var með væg einkenni en taldi þau vera vegna undirliggjandi sjúkdóms. Þær fóru í sýnatöku í gær og niðurstaðan var jákvæð. Hefðu þær lent á Nýja-Sjálandi degi síðar þá hefðu þær farið í skimun á landamærum sem hófst 8. júní
Nýja-Sjáland hefur náð undaverðum árangri í baráttunni við faraldurinn en landið lokaði landamærum sínum mjög fljótlega og þar var útgöngubann sett á. Nú óttast sumir þar í landi, eins og hér, að verið sé að bjóða hættunni heim með því að opna landamærin.
Alls hafa 1.506 smit greinst þar í landi og 22 hafa látið lífið úr COVID-19.