Heimilislausum börnum í Berlín í Þýskalandi voru fundin heimili hjá barnaníðingum með reglubundnum hætti í þrjá áratugi. Þetta leiðir rannsókn á vegum Háskólans í Hildesheim í ljós.
Um var að ræða tilraunaverkefni á vegum sálfræðiprófessorsins Helmut Kentler, en hann hélt því fram að barnaníðingar gætu verið sérstaklega góðir fósturforeldrar og trúði því að kynferðisleg samskipti, sem nú myndi ekki vera kallað annað en kynferðislegt ofbeldi, fullorðinna og barna væru meinlaus.
Rannsókn á verkefninu, sem kallaðist Kentler-verkefnið og stóð yfir frá um 1970 til aldamóta, leiddi í ljós að borgaryfirvöld í Berlín hefðu lagt blessun sína á tilraun Kentlers og jafnvel greitt níðingunum fyrir að taka börn í fóstur.
Tvö þeirra barna sem „tóku þátt“ í Kentler-verkefninu stigu fram og sögðu sögu sína fyrir nokkrum árum og síðan þá hafa rannsakendur við Háskólann í Hildesheim kafað ofan í skýrslur og tekið viðtöl og komist að hinu sanna um verkefnið. Yfirvöld í Berlín hafa heitið því að varpa ljósi á málið.