Kórónuveiran líklega á Ítalíu í desember

Fólk siglir á skipaskurði í Feneyjum á Ítalíu.
Fólk siglir á skipaskurði í Feneyjum á Ítalíu. AFP

Rannsókn heilbrigðisstofnunar Ítalíu leiðir í ljós að skólpvatn úr tveimur borgum hafi innihaldið merki um kórónuveiru í desember, löngu áður en fyrsta tilfelli veirunnar var staðfest þar á Ítalíu. Þessar niðurstöður bætast við aðrar vísbendingar um að veiran hafi verið í Evrópu mun fyrr en áður var talið. BBC greinir frá þessu.

Kínverskir embættismenn staðfestu fyrsta tilfellið þarlendis í lok desember og Ítalir um miðjan febrúar. 

Í maí sögðu franskir vísindamenn að prófanir á sýnum úr sjúklingi sem talinn var þjást af lungnabólgu hafi leitt í ljós að sá var í raun með COVID-19. 

Spænsk rannsókn leiddi í ljós að merki um veiruna hafi verið í fráveituvatni sem safnað var um miðjan janúar í Barcelona, 40 dögum áður en fyrsta tilfellið var staðfest þar í landi. 

Engin veira í október og nóvember

Í rannsókn sinni skoðuðu vísindamenn heilbrigðisstofnunar Ítalíu 40 sýni úr skólpvatni frá norðurhluta Ítalíu sem safnað var frá október til febrúar. Sýni frá október og nóvember innihéldu engin merki um veiruna en merki um hana fundust í skólpvatni frá Bologna.

Þessi uppgötvun gæti hjálpað vísindamönnum að kortleggja hvernig veiran hefur dreift sér um landið. Hún er þó ekki staðfesting þess að mikil útbreiðsla veirunnar á Ítalíu hafi byrjað með þessum fyrstu, óskráðu tilfellum, að sögn vísindamanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert