Benjamín Netanyahu forsætisráðherra Ísraels var þungur í bragði þegar hann ávarpaði þjóð sína á fimmtudaginn, segir í frétt Spiegel. Hann sagði að nú þyrfti fólk að breyta hegðun sinni. Ef ekki, þyrfti að loka öllu á nýjan leik.
Önnur bylgja kórónuveirufaraldursins er hafin í Ísrael, ef marka má fréttina. Á föstudaginn greindust 350 ný smit, sem er hundraðföldun á við tölfræðina í maímánuði, þegar ný dagleg smit voru teljandi á fingrum annarrar handar.
Ísrael var á meðal þjóða sem taldar voru hafa náð áberandi góðum árangri í baráttunni við faraldurinn. Til fyrirmyndar fyrir önnur ríki, var sagt, og talað um fullnaðarsigur á vágestinum. Strax í mars hafði verið ráðist í róttækar varnaraðgerðir, landamærum lokað, ferðir og samskipti takmörkuð og hagkerfið lagðist hálfpartinn í híði. Þetta hreif allt saman, rétt eins og á Íslandi, en nú er árangrinum teflt í tvísýnu.
Hvað gerðist? Það virðist einfaldlega hafa verið farið of geyst af stað. Samkomur voru leyfðar aftur og hagkerfið skrölti aftur af stað. Með hverri afléttingu sem gerð var fjölgaði tilfellunum.
Spiegel ræðir við sérfræðing í sóttvörnum í Ísrael sem segir að fólk hafi orðið værukært. „Fólk hugsaði: Þetta er búið. Það gleymdi að veiran gæti áfram leynst á meðal okkar,“ segir sérfræðingurinn.
Vikum saman hafi fólk hírst á heimilum sínum og verið síðan frelsinu fegið þegar loksins mátti koma saman á ný. Það taldi sig óhult vegna tölfræðinnar sem lofaði góðu og því hafi það hætt að gæta sín.
Vissulega ber mikill fjöldi smita þess merki að fleiri eru nú skimaðir en áður var, en engu síður er litið svo á að önnur bylgja faraldursins sé skollin á. Sérfræðingur umræddur segir þessa framvindu mála geta verið öðrum þjóðum víti til varnaðar: „Ekki opna allt aftur of snemma. Og ekki vera of bjartsýn,“ segir hann. Það taki tíma fyrir ný smit að rata inn í tölfræðina. Í dag geti tölurnar lofað góðu, eftir tvær vikur geti þær verið roknar upp á ný.