Þrír létust og þrír særðust alvarlega í hnífstunguárás í almenningsgarði í Reading á Englandi í gærkvöldi. 25 ára karlmaður hefur verið handtekinn í tengslum við árásina.
Árásin átti sér stað um klukkan 19 að staðartíma, en hún er ekki rannsökuð sem hryðjuverk að sögn lögreglu. Samkvæmt heimildum BBC er árásarmaðurinn frá Líbýu og hefur hann setið í fangelsi á Englandi fyrir minniháttar brot.
Vitni segir manninn hafa nálgast nokkra hópa í garðinum áður en hann réðst til atlögu. „Hann stakk þrjá og sneri sér svo við og hljóp í áttina að mér, þá snerum við okkur við og hlupum í burtu. Þegar hann áttaði sig á að hann gæti ekki stungið okkur sneri hann sér að hópi fólks sem sat á jörðinni,“ segir Laurence Wort í samtali við BBC.
Lögregla hefur beðið fólk sem varð vitni að árásinni að deila ekki myndefni af virðingu við aðstandendur hinna látnu.