Norðmenn eiga í vandræðum með að gera upp við sig hver eða hverjir eigi að skipta sér af ferðamönnum sem nú koma akandi inn í Noreg á eigin bílum og ferðast um landið án þess að beinlínis mega það. Til dæmis ferðamenn frá Þýskalandi og Ítalíu sem samkvæmt reglum ættu að hefja dvöl sína í tíu daga sóttkví.
Miðað við núgildandi reglur mega ferðamenn frá Danmörku, Íslandi, Finnlandi, sænsku eyjunni Gautlandi, Færeyjum og Grænlandi koma til Noregs án þess að sæta sóttkví. Aðrir eiga í raun að hefja dvöl sína í sóttkví, en allur gangur virðist vera á því svo sem sjá má til dæmis á myndinni sem hér fylgir þar sem bifreið á þýskum númerum með augljósum ferðabúnaði á við reiðhjól og farangursbox er ekið um götur Bodø aðeins örfáum dögum eftir að landamærin voru opnuð 15. júní.
Norska ríkisútvarpinu NRK hefur borist fjöldi ábendinga og fyrirspurna um hvort þetta ferðafólk hafi leyfi til að spóka sig um götur og torg.
Ekki reyndist auðvelt að fá svar við þessu þegar NRK tók að kanna málið. Dómsmálaráðuneytið benti á lögregluna, lögreglan benti á heilbrigðisráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið benti á þessa grein á upplýsingasíðu ríkisstjórnarinnar þar sem fram kemur að heilbrigðisráðuneytið beri ekki ábyrgð á reglunum um komur til landsins en Útlendingastofnun haldi hins vegar úti upplýsingasíðu með spurningum og svörum.
Á þeirri síðu er svo bent á lögregluna varðandi eftirfylgni reglnanna. Ríkislögreglustjóri (n. Politidirektoratet) segir hvert lögregluumdæmi fyrir sig taka ákvarðanir á þessum vettvangi en illa hefur gengið að fá upplýsingar frá þeim. Lögreglustjórinn í Nordland, þaðan sem myndin með fréttinni er, hefur til dæmis engu svarað.
Að lokum svaraði þó Jørn Schjelderup, stjórnandi viðbúnaðarmála (n. beredskapsdirektør) hjá ríkislögreglustjóra, spurningum NRK. „Margar ástæður geta legið því til grundvallar að útlendingar séu staddir í landinu. Lögreglan metur hvert tilfelli fyrir sig og getur vísað fólki frá landinu teljist það nauðsynlegt.“ Kveður hann slíkar brottvísanir geta átt sér stað hvort tveggja á landamærum og eftir að fólk er komið inn í landið.
Er fólki þá uppálagt að hringja í lögregluna sjái það ferðafólk frá öðrum löndum en þeim sem heimilaðar eru ferðir til Noregs?
„Nei. Margir hafa samband við lögreglu verði þeir vitni að því að ráðunum er ekki fylgt. Mikilvægt er að hafa í huga að megnið af þessu eru ráð og leiðbeiningar sem hverri manneskju ber að fylgja af tillitssemi við aðra,“ segir Schjelderup.
„Lögreglan á að einbeita sér að því að fyrirbyggja og berjast gegn alvarlegum afbrotum. Við teljum það bestu forgangsröðina miðað við stöðuna eins og hún er núna.
Fleiri en lögreglan og NRK hafa fengið fyrirspurnir og athugasemdir frá áhyggjufullum almenningi. Einn þeirra er Remi Magnus Solberg, bæjarstjóri í Vestvågøy í Lofoten. Solberg segist hafa fullan skilning á að lögreglan geti ekki staðið í því að elta uppi ferðamenn. „En ég skil vel að fólk hafi áhyggjur og þetta þarf að ræða áður en það verður að vandamáli,“ segir bæjarstjórinn sem á morgun mun funda með lögreglustjóranum og fylkisstjóranum í Nordland um málið.
NRK
NRKII (fullkomin óvissa)
NRKIII (vilja beint flug frá Gautlandi til Noregs)
NRKIV (Norðmenn streyma til Danmerkur)