Ástralar eru varaðir við því að ferðast til Melbourne þar sem yfirvöld óttast að önnur bylgja kórónuveirufaraldursins sé við það að breiðast út í borginni, sem er sú næststærsta í Ástralíu. Hert hefur verið á takmörkunum í borginni.
Yfir 110 tilfelli COVID-19 hafa greinst í Viktoríufylki síðustu viku, flest þeirra í Melbourne. Þó svo að tilfellin séu tiltölulega fá veldur það áhyggjum að illa hefur tekist að rekja uppruna smitanna.
Gladys Berejiklian, fylkisstjóri nágrannafylkisins Nýja Suður-Wales, hvetur þá sem hyggja á ferðalög til Melbourne, eða fimm annarra staða í Viktoríufylki sem flokkaðir eru sem áhættustaðir, að endurhugsa málið.
Yfirvöld í Viktoríufylki hafa frestað fyrirhuguðum áætlunum að draga úr samkomutakmörkunum. Til stóð að auka leyfilegan hámarksfjölda á veitingastöðum og kaffihúsum en því verður frestað um sinn.
Brett Sutton, yfirmaður heilbrigðismála í fylkinu, segir þróunina hættulega og kennir hann þreytu íbúa á útgöngubanni um aukningu smita. Hann segir stöðuna alvarlega, sérstaklega þar sem ekkert „plan B“ sé til staðar.
102 hafa látið lífið af völdum veirunnar í Ástralíu og 7.500 tilfelli hafa verið staðfest.