Rannsaka andlát fransks manns — „Ég er að kafna“

Fjöldi mótmæla hefur verið haldinn um heim allan í kjölfar …
Fjöldi mótmæla hefur verið haldinn um heim allan í kjölfar drápsins á svarta Bandaríkjamanninum George Floyd, sem kafnaði er lögreglumaður kraup á hálsi hans í nærri níu mínútur. Í Frakklandi kveðast ungir svartir og arabískir menn ítrekað verða fyrir ofbeldi af hálfu lögreglunnar. AFP

Yfirvöld í Frakklandi hafa til rannsóknar atvik þar sem maður lést á sjúkrahúsi eftir að lögregla stöðvaði för hans.

Á 22 sekúndna myndskeiði, sem franskir fjölmiðlar hafa undir höndum, heyrist hinn 42 ára fimm barna faðir Cédric Chouviat sjö sinnum segjast vera að kafna þar sem lögreglumenn halda honum niðri. Hann lést á sjúkrahúsi tveimur dögum eftir handtökuna. Samkvæmt dánardómstjóra voru orsakir andlátsins súrefnisskortur og brotið barkakýli.

Fjórir lögreglumenn sem komu að atvikinu hafa nú verið yfirheyrðir, en þeir kveðast hafa stöðvað för Chouviat vegna þess að hann var í símanum við akstur bifhjóls síns, auk þess sem númeraplata þess var skítug.

Enginn lögregluþjónanna hefur verið rekinn úr starfi vegna atviksins, en nú er til skoðunar hvort ákæra eigi einhvern þeirra vegna andláts Chouviat.

Samkvæmt vitnum að atvikinu héldu lögregluþjónarnir Chouviat í hálstaki, sem er umdeild og hættuleg aðferð til að halda fólki föstu og hefur verið bönnuð í mörgum löndum. Í kjölfar mótmæla vegna andláts Chouviat hafa yfirvöld í Frakklandi heitið því að banna hálstakið.

Fjöldi mótmæla hefur verið haldinn um heim allan í kjölfar drápsins á svarta Bandaríkjamanninum George Floyd, sem kafnaði er lögreglumaður kraup á hálsi hans í nærri níu mínútur. Í Frakklandi kveðast ungir svartir og arabískir menn ítrekað verða fyrir ofbeldi af hálfu lögreglunnar.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert