Yfir 50 þúsund hafa látið lífið af völdum COVID-19 í Brasilíu. Aðeins í Bandaríkjunum hafa fleiri látið lífið af völdum veirunnar. Staðfest tilfelli í Brasilíu eru yfir milljón en sérfræðingar vara við því að faraldurinn eigi enn eftir að ná hápunkti þar í landi.
Samkvæmt gögnum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) hafa aldrei greinst jafn mörg tilfelli og síðasta sólarhring, eða yfir 183 þúsund, flest þeirra í Brasilíu og Bandaríkjunum, þar sem staðfest tilfelli eru rúmlega 2,3 milljónir.
Almenningur hefur mótmælt viðbrögðum Jair Bolsonaro forseta Brasilíu og stjórnvalda við útbreiðslu kórónuveirunnar og fjöldi fólks mótmælti um helgina. Krafan er skýr: Bolsonaro á að segja af sér.
Bolsonaro hefur farið gegn tilmælum heilbrigðisyfirvalda og neitað að setja á útgöngubann í landinu til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar. Helstu rök forsetans eru að efnahagsleg áhrif yrðu þeim mun meiri en áhrif veirunnar sjálfrar. Tveir heilbrigðisráðherrar hafa sagt af sér embætti frá því að faraldurinn breiddist út í Brasilíu.