Dómari í Brasilíu hefur úrskurðað að Jair Bolsonaro forseti skuli ganga með andlitsgrímu á almannafæri í höfuðborginni Brasilia.
Forsetinn hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að gera lítið úr hættunni sem stafar af kórónuveirunni, en hann hefur meðal annars líkt sjúkdómnum sem hún veldur við „smá kvef“.
Brasilía státar af næstmestum fjölda staðfestra kórónuveirusmita í heiminum á eftir Bandaríkjunum. Í Brasilíu eru smit orðin 1,1 milljón talsins og 51 þúsund eru látin.
Þrátt fyrir mikla útbreiðslu kórónuveirunnar í Brasilíu hefur forsetinn ítrekað sést andlitsgrímulaus á almannafæri, og við eitt tækifæri hefur hann sést hósta án þess að bera hönd fyrir vit sín og annað hnerra í hönd sína og taka svo í hönd eldri konu rakleiðis á eftir.
Reglur voru settar um notkun andlitsgríma á almannafæri í höfuðborginni Brasilia 30. apríl og síðan 11. maí hefur þeim sem brotið hafa reglurnar verið gert að sæta sektum. Nú hefur dómari úrskurðað að forsetinn sé ekki undanskilinn reglum þessum og verði að bera andlitsgrímu á almannafæri eins og aðrir.