Ron Jeremy ákærður fyrir nauðgun

Ron Jeremy í dómsal í gær. Hann er ákærður fyrir …
Ron Jeremy í dómsal í gær. Hann er ákærður fyrir að nauðga þremur konum og áreita þá fjórðu kynferðislega. AFP

Klámmyndaleikarinn Ron Jeremy hefur verið ákærður fyrir að nauðga þremur konum og áreita þá fjórðu kynferðislega. Í ákæru segir að Jeremy hafi nauðgað 25 ára konu í heimahúsi í Los Angeles, en hin brotin hafi hann framið á sama bar í borginni á árunum 2017 til 2019. Verði Jeremy fundinn sekur á hann yfir höfði sér allt að 90 ára dóm.

Jeremy, sem er 67 ára gamall, er þekktur innan klámheimsins en hann hefur leikið í meira en 2.000 klámsenum frá því á áttunda áratugnum. Ásakanir um kynferðisbrot komu fyrst upp á yfirborðið í #MeToo hreyfingunni árið 2017 en í grein í Rolling Stones stigu á annan tug kvenna fram og sökuðu Jeremy um að hafa beitt þær ofbeldi. Jeremy hefur sjálfur þvertekið fyrir öll brot en í yfirlýsingu á Twitter segist hann hlakka til að geta sannað sakleysi sitt í dómsal.

Umboðsskrifstofa hans, Golden Artists Entertainment, aðhafðist ekkert er ásaknir komu fyrst fram 2017 og gaf það þá út að Jeremy hefði fært þeim sönnur á að hann væri saklaus. Í kjölfar ákærunnar hefur fyrirtækið hins vegar slitið öll tengsl við Jeremy.

Hann verður leiddur fyrir rétt á fimmtudag en saksóknarar leggja til að sett verði hámarkstryggingarfé, 6,6 milljónir dala.

NY Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka