Mánuður er í dag liðinn frá því lögreglumaður drap George Floyd í Minneapolis í Bandaríkjunum. Í kjölfarið upphófust einhver mestu mótmæli í Bandaríkjunum í áraraðir en mótmælendur krefjast róttækra breytinga á störfum lögreglunnar til þess að uppræta kynþáttafordóma sem hafi fengið að grassera næsta óafskipt innan lögreglunnar hingað til.
Óhætt er að segja að mótmælin séu þegar farin að bera ávöxt, þótt mótmælendur telji langt í land en fjöldi eldri mála, þar sem grunur leikur á lögregluofbeldi, hefur verið dreginn fram í dagsljósið á ný síðustu vikur og virðast löggæsluyfirvöld skyndilega sjá ástæðu til að bregðast við málum sem stungið var í skúffuna á sínum tíma.
Eitt þeirra mála er aðdragandinn að dauða 23 ára gamals svarts manns, Elijah McClain, sem vann sem nuddari. McClain lést í haldi lögreglu síðsumars í fyrra. Atburðarásin er nokkurn veginn á þessa leið:
McClain var á gangi heim úr verslun á laugardagskvöldi í heimaborg sinni, Aurora í Colorado. Hann hafði farið út í búð til að kaupa íste handa bróður sínum. Þrír hvítir lögreglumenn stoppuðu hann á leiðinni. Neyðarlínunni hafði borist ábending um grunsamlegar ferðir manns sem bar skíðagrímu og sveiflaði höndum en sá reyndist vera McClain. 15 mínútum síðar hafði McCain verið slengt í jörðina, hann handtekinn og sprautaður með ketamíni. Á leið upp á spítala lést McCain úr hjartaáfalli.
Málið fékk dálitla athygli í héraðsmiðlum. Fjölskylda og vinir McClain komu fram í viðtölum og útskýrðu að McClain hefði sennilega verið að hlusta á tónlist á leiðinni úr búðinni og því sveiflað höndunum. Hann ætti það til. Þá þjáðist hann af astma og notaði þess vegna grímuna.
Viðkvæmir eru varaðir við myndskeiðinu.
Innanhússrannsókn lögreglu leiddi í ljós að lögreglumennirnir hefðu ekki brotið af sér. Búkmyndavélar lögreglu og hljóðupptökur úr þeim voru lagðar til grundvallar og birtar opinberlega, en einhverra hluta vegna féllu þær af lögregluþjónunum í átökunum og því eru aðeins fyrstu mínútur átakanna til á upptöku. Hljóðið hélt þó áfram og á einum tímapunkti má heyra einn lögreglumann segja við annan að færa myndavélina sína.
Lögmaður fjölskyldu McClain sakaði lögeglumennina um að hafa vísvitandi tekið af sér myndavélarnar og það sem meira er, logið til um að McClain hefði reynt að grípa í byssu lögreglumanns en það var uppgefin ástæða lögreglumannanna fyrir því að hafa hafið átökin. Sjálfur var McClain óvopnaður, en sá sem hringdi á neyðarlínuna hafði einmitt tekið það fram í símtalinu að hann teldi svo vera.
Í innanhússrannsókn lögreglu var ekki tekin afstaða til þess hvað olli dauða McClain en þeim hugmyndum er varpað fram að hann hafi mögulega látist af völdum óeðlilegra viðbragða líkamans við lyfjaskammtinum eða úr astmakasti. Þar við sat.
Mál McClains hefur verið dregið upp í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum síðustu vikur. Stofnað var til undirskriftasöfnunar á vefnum Change.org en þar hafa 2,6 milljónir manna skrifað undir og krafist réttlætis til handa Elijah McClain. Myllumerkið #JusticeForElijah hefur farið sem eldur í sinu um netheima og ljóst að fjöldi fólks telur innanhússrannsókn lögreglu ófullnægjandi og mörgum spurningum enn ósvarað. Þúsundum tölvupósta hefur rignt yfir saksóknarann Dave Young, sem áður hafði metið ólíklegt til árangurs að sækja lögreglumennina til saka og látið málið niður falla.
„Við höfum séð sönnunargögnin [...] svo undirskriftasafnanirnar, tölvupóstarnir, skilaboðin og árásirnar í minn garð og fjölskyldu minnar og allar aðrar skoðanir [...] það eru ekki sönnunargögn,“ segir Young og bætir við að hann verji þó ekki aðgerðir lögreglu. „Ég held að þeir hefðu getað gert hlutina öðruvísi.“
Þrátt fyrir að Young hafi ekki snúist hugur hafa mótmælin borið einhvern árangur. Borgaryfirvöld samþykktu í gær að hefja óháða rannsókn á andláti Elijah McClain. Í bréfi frá yfirvöldum til CNN segir: „Borgarstjórinn, borgarstjórn og borgarritari eru að vinna að því að koma á fót nýrri óháðri og utanaðkomandi rannsókn á aðgerðum lögreglu, slökkviliðsmanna og sjúkraflutningamanna í máli Elijah McClain. Við erum að skoða teymi sérfræðinga hvaðanæva að á landinu til þess að geta veitt betri innsýn í málið.“
Teymið hefur enn ekki verið skipað og vitanlega langur vegur að því að það skili niðurstöðu, hvað þá að málið fari lengra ef svo ber undir. Ljóst er þó að milljónir vökulla augna vaka yfir störfum rannsóknarnefndarinnar og mega fagna því í dag að vera einu skrefi nær því að réttlætinu sé fullnægt.