Aldrei fleiri dagleg smit í Bandaríkjunum

Smitum hefur fjölgað víða um Bandaríkin
Smitum hefur fjölgað víða um Bandaríkin AFP

Aldrei hafa fleiri smitast af kórónuveirunni á einum degi í Bandaríkjunum en í gær. Þetta kemur fram í tölum frá John Hopkins-háskólanum í Maryland. BBC greinir frá.

40 þúsund smit greindust í Bandaríkjunum í gær, hinn 25. júní. Þar áður hafði mesti daglegi fjöldi greindra smita verið 36.400, en það var hinn 24. apríl.

Um 2,4 milljónir smita hafa verið staðfest í Bandaríkjunum og rúmlega 122 þúsund manns hafa dáið af völdum veirunnar, fleiri en í nokkru öðru landi.

Þótt hluta fjölgunarinnar megi rekja til aukningar í skimun fyrir veirunni hefur hlutfall jákvæðra prófa aukist í sumum hlutum landsins. Heilbrigðisyfirvöld telja að raunveruleg tilfelli gætu verið allt að tíu sinni fleiri en opinberar tölur gera ráð fyrir.

Ferðatakmarkanir innanlands

Kórónuveirutilfellum hefur sérstaklega fjölgað í Suðurríkjum Bandaríkjanna og við Vesturströndina. Tilfellum hefur fjölgað í ríkjum á borð við Texas, Flórída, Kalifornía, Arizona, Idaho og Mississippi. Sum ríkjanna, líkt og Texas og Flórída, hafa þurft að fresta tilslökunum í aðgerðum gegn veirunni.

Á miðvikudaginn tilkynntu yfirvöld í New York, New Jersey og Connecticut að ferðamenn frá átta ríkjum, Alabama, Arkansas, Arizona, Flórída, Norður- og Suður Karólína, Texas og Utah, þyrftu að fara í fjórtán daga sóttkví við komu sína.

Þá hefur Evrópusambandið íhugað að banna Bandaríkjamönnum að ferðast til aðildarríkja ESB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert