Merkja skaðlegar færslur

Zuckerberg segir að Facebook muni herða á stefnu sinni
Zuckerberg segir að Facebook muni herða á stefnu sinni AFP

Facebook hefur tilkynnt að fyrirtækið muni byrja að merkja færslur sem gætu mögulega valdið skaða. Fyrirtækið hefur áður sagt að það sé gegn gildum sínum að fjarlægja skaðlegar færslur, en Facebook hefur verið undir miklum þrýstingi frá stjórnvöldum og öðrum fyrirtækjum vegna ritstjórnarstefnu sinnar. BBC greinir frá.

Rúmlega níutíu fyrirtæki hafa ákveðið að sniðganga fyrirtækið, og sum þeirra hafa ákveðið að hætta að auglýsa á samfélagsmiðlum alfarið.

Hætta að auglýsa á samfélagsmiðlum

Coca-Cola tilkynnti í dag að fyrirtækið myndi hætta að auglýsa á samfélagsmiðlum þangað til tekið væri á hatursorðræðu og rasisma á miðlunum. Framkvæmdastjóri Coca-Cola krefst ábyrgðar og gegnsæis á samfélagsmiðlum, og að það sé ekkert pláss fyrir rasisma, hvorki á samfélagsmiðlum né í heiminum.

Ísgerðin Ben & Jerry's og sápufyrirtækið Dove eru einnig hætt að auglýsa á Facebook, Twitter og Instagram, að minnsta kosti út árið 2020.

Facebook mun byrja að merkja mögulega skaðlegar færslur sem slíkar.
Facebook mun byrja að merkja mögulega skaðlegar færslur sem slíkar. AFP

Mistekist að axla ábyrgð

Í tilkynningu Marks Zuckerbergs, stofnanda Facebook, segir að fyrirtækið muni herða á stefnu sinni til að takast á við þær breytingar sem eigi sér stað í heiminum. Þá muni Facebook banna auglýsingar sem ógni mismunandi hópum með tilliti til kynþáttar eða þjóðernis.

Einnig verða færslur sem dæmdar eru skaðlegar merktar sem slíkar.

Skipuleggjendur sniðgöngunnar á Facebook telja að aðgerðir fyrirtækisins gangi ekki nógu langt. Forseti góðgerðarsamtakanna Colour for Change segir að Facebook hafi mistekist að takast á við skaðann sem miðillinn hafi valdið fyrir lýðræði og borgararéttindi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert