Sláandi tölur frá Arizona og Flórída

Húðflúrmeistarinn Mike Garner með öryggið á nálaroddinum við störf í …
Húðflúrmeistarinn Mike Garner með öryggið á nálaroddinum við störf í Tampa í Flórída í gær. Aldrei hafa fleiri ný kórónuveirusmit greinst einn og sama sólarhringinn sem þann síðasta í Flórída auk þess sem sláandi tölur berast frá Arizona, Texas, Alabama, Mississippi og fleiri ríkjum sem ekki voru meðal þeirra verst stöddu í árdaga faraldursins. AFP

Aldrei hafa fleiri greinst smitaðir af kórónuveirunni í ríkjunum Arizona og Flórída í Bandaríkjunum en síðastliðinn sólarhring þegar 9.585 ný smit greindust í Flórída og 3.591 í Arizona, en skyndileg útbreiðsla sóttarinnar hefur verið áberandi í ríkjum sunnar- og vestarlega í Bandaríkjunum síðustu dægur og orðið til þess að stjórnvöld fjölda ríkja, þar á meðal Texas, hafa ákveðið að slá áætlunum sínum um opnanir vinnu- og samkomustaða á frest í von um að hefta frekari útbreiðslu veirunnar.

Fleiri en 45.000 ný kórónuveirutilfelli greindust í Bandaríkjunum í gær, föstudag, sem að sögn Reuters-fréttastofunnar er það mesta sem sögur fara af einn og sama daginn.

Þróunin í Suður- og Vestur-Bandaríkjunum síðustu daga er reiðarslag fyrir rekstraraðila sem undanfarnar vikur hafa leyft sér að vonast eftir rísandi sól með opnun veitingastaða og fjölda annarra vinnu- og samkomustaða.

Útgöngubann í Galena Park

„Að gæta hreinlætis og halda sig heima við, forðast ónauðsynlegan þvæling og samkomur og nota andlitsgrímu alltaf þegar farið er út er algjörlega lífsnauðsynlegt,“ sagði Esmeralda Moya, bæjarstjóri Galena Park, 10.000 íbúa smábæjar austan við Houston í Texas, í samtali við Reuters í gær en þar í bænum ríkir nú útgöngubann frá klukkan 10 að kvöldi til fimm að morgni.

Greg Abbott, ríkisstjóri Texas, sló öllum áætlunum um frekari opnun samkomustaða á frest í vikunni eftir að 6.000 ný kórónuveirutilfelli greindust þar í ríkinu einn og sama sólarhringinn auk þess að fyrirskipa lokun allra öldurhúsa, sem þegar höfðu verið opnuð, og gera veitingastöðum að takmarka sætaframboð innanhúss við helming þess sem staðirnir hefðu leyfi til.

New York og New Jersey, ríki sem snemma urðu illa úti í faraldrinum og lýstu yfir neyðarástandi í vor, hafa nú tekið höndum saman við nágrannaríki sitt Connecticut og gera öllum sem þangað koma frá þeim ríkjum, hvar flestir hafa greinst með veiruna, að sæta 14 daga sóttkví.

Reuters

NPR

CNN

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert