Herða reglur vegna smita

Um 9.500 tilfelli veirunnar komu upp í Flórída á laugardaginn.
Um 9.500 tilfelli veirunnar komu upp í Flórída á laugardaginn. AFP

Kórónuveirusmitum hefur fjölgað mikið í Bandaríkjunum nýverið, og hefur heildarfjöldi smita náð tveimur og hálfri milljón. Sérstaklega hefur smitum fjölgað í suðurríkjum Bandaríkjanna, og er sú aukning talin vera afleiðing enduropnunar fyrirtækja.

Á laugardaginn greindust meira en 9.500 smit í Flórída og sóttvarnaraðgerðir í ríkinu hafa verið hertar. Ríkisstjóri Flórída, Ron DeSantis, tilkynnti herðingarnar á föstudaginn en meðal annars verður börum ekki heimilt að bjóða upp á áfengi.

Sóttvarnaraðgerðir í Texas og Arizona hafa einnig verið hertar, m.a. var sett útgöngubann í bænum Galena Park, austan Houston í Texas, til að minnka álag á spítala á svæðinu.

Fjöldi suður- og vesturríkja Bandaríkjanna hefur tilkynnt um fjölgun tilfella veirunnar, en mörg þeirra höfðu hafið tilslakanir á sóttvarnaraðgerðum.

Meira en 125 þúsund manns hafa látist af völdum kórónuveirunnar í Bandaríkjunum, fleiri en í nokkru öðru landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert