Íslendingar eru ekki einir um forsetakosningar þessa síðustu helgi júnímánaðar, en í dag flykkjast Pólverjar á kjörstað til að kjósa sér nýjan forseta.
Í Póllandi stefnir í einvígi milli núverandi forseta, Andrzejs Duda, og borgarstjóra Varsjár, Rafals Trzakowskis. Líklegt þykir að úrslitin ráðist í annarri umferð kosninga sem haldin verður að tveimur vikum liðnum, en frambjóðandi verður að hljóta afgerandi meirihluta atkvæða til að vinna forsetakosningarnar.
Duda er frambjóðandi stjórnarflokksins íhaldssama Laga og réttlætis og tapi hann kosningunum má búast við talsverðum breytingum á stjórnarháttum í Póllandi.
Vel er fylgst með forsetakosningunum annars staðar í Evrópu, en Duda og flokkur hans hafa ítrekað átt í ágreiningi við Evrópusambandið, nú síðast þegar Duda sagði samkynhneigð vera „hugmyndafræði hættulegri en kommúnismi“. Varaforseti Evrópuráðsins, Vera Jourova, brást við og sagði það mjög sorglegt þegar stjórnmálamenn í svo háu embætti ákvæðu að gera minnihlutahópa að skotspæni.
Trzaskowski er frambjóðandi Borgaraflokksins og mun frjálslyndari og hefur heitið því, verði hann kjörinn forseti, að bæta samband Póllands og ráðamanna í Brussel.
En þrátt fyrir að Duda og ríkisstjórn Póllands skori ekki hátt á vinsældalistum í Evrópu er hið sama ekki að segja vestan Atlantshafsins, en Duda varð í vikunni fyrsti forsetinn til að heimsækja Donald Trump Bandaríkjaforseta eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á og vel fór á með leiðtogunum. Trump lofaði Duda í hástert á blaðamannafundi og lofaði að senda bandaríska hermenn frá Þýskalandi yfir til Póllands.
Hljóti Duda 50% atkvæða í kosningunum í dag verður hann áfram forseti, en það þykir ólíklegt og verður því líklega boðað til annarrar umferðar forsetakosninga eftir tvær vikur. Gangi það fylgi sem skoðanakannanir sýna Trzaskowski hafa eftir verður nafn hans einnig á kjörseðlinum að tveimur vikum liðnum.