Philippe Belgíukonungur hefur lýst yfir „einlægri eftirsjá“ vegna nýlendutíma Belgíu í Lýðveldinu Kongó. Konungurinn lýsti þessu yfir í bréfi til Felix Tshisekedis, forseta Kongós, í tilefni af 60 ára sjálfstæði Kongós.
Belgar voru nýlenduherrar Kongó frá 19. öld þar til Kongó fagnaði sjálfstæði sínu árið 1960. Milljónir létust undir harðstjórn Belga í Afríku.
Þúsundir hafa mótmælt í Belgíu undanfarnar vikur í kjölfar dauða George Floyds og styttur og minnismerki um Leopold II. nýlendukonung hafa beðið skemmdir. Fram kemur á BBC að 10 milljónir Afríkubúa hafi látist undir stjórn Leopolds, en Philippe konungur er afkomandi hans í beinan ættlegg.
Aldrei áður hefur belgískur þjóðhöfðingi lýst yfir iðrun sinni eða eftirsjá yfir framgangi Belga í Afríku. „Ég vil lýsa yfir einlægri eftirsjá minni fyrir sárindi fortíðarinnar, sársaukann sem hefur nú verið endurvakinn af mismununinni sem er enn viðvarandi í samfélaginu okkar,“ skrifaði Philippe konungur í bréfi sínu.