Fauci: Tilfelli gætu orðið 100.000 daglega

Fauci sagðist ekki geta sagt til um nákvæman fjölda tilfella …
Fauci sagðist ekki geta sagt til um nákvæman fjölda tilfella og dauðsfalla sem muni koma upp í Bandaríkjunum áður en heimsfaraldri lýkur en sagði: „Fjöldinn verður mjög truflandi, því get ég lofað ykkur.“ AFP

Læknirinn Anthony Fauci, sem leiðir sótt­varnateymi Hvíta húss­ins, varaði Bandaríkjaþing í dag við því að 100.000 tilfelli kórónuveiru gætu farið að greinast í Bandaríkjunum daglega. CNN greinir frá þessu. 

„Nú greinast 40 þúsund eða fleiri tilfelli daglega. Það kæmi mér ekki á óvart ef sú tala hækki í 100.000 [...] og af því hef ég miklar áhyggjur,“ sagði Fauci við öldungadeild Bandaríkjaþings í dag. 

Mikill skaði fram undan

Fauci lýsti yfir óánægju með fólk sem safnast saman í mannmörgum hópum og notar ekki grímur. Þá sagði hann að ófullnægjandi athygli væri veitt leiðbeiningum um tilslakanir.

„Við munum halda áfram að vera í miklum vandræðum og mikill skaði verður ef við endum ekki vandræðaganginn,“ sagði Fauci.

Síðastliðinn föstudag greindust 40.000 tilfelli kórónuveirunnar í Bandaríkjunum og var þá um að ræða hæstu tölu greindra tilfella þar í landi á einum degi. 

Spurður hvort yfirvöld hafi stjórn á faraldrinum sagði Fauci: „Ég er ekki sáttur við það sem er að gerast vegna þess að við förum í ranga átt ef þú horfir á fjölgun nýrra tilfella. Við verðum að gera eitthvað í þessu og það fljótt. Við erum augljóslega ekki með fullkomna stjórn á faraldrinum eins og leikar standa.“

Fauci sagðist ekki geta sagt til um nákvæman fjölda tilfella og dauðsfalla sem muni koma upp í Bandaríkjunum áður en heimsfaraldri lýkur en sagði: „Fjöldinn verður mjög truflandi, því get ég lofað ykkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert