Europol hefur lokað fyrir dulkóðað símkerfi sem notað var af skipulögðum glæpasamtökum í Evrópu við skipulagningu morða og fíkniefnaviðskipta.
Símkerfið, sem ber heitið EncroChat, var hakkað af frönsku og hollensku lögreglunni sem komst þannig yfir milljónir skilaboða sem sýndu samskipti glæpahópanna. Í kjölfarið hefur lögreglan framkvæmt yfir hundrað handtökur.
Stofnendur EncroChat vöruðu notendur sína við í júní og hvöttu þá til að eyða öllum gögnum þar sem þeir höfðu fengið veður af því að yfirvöld væru komin á sporið.
Aðgerðin gerði lögreglu kleift að „komast í innsta kjarna“ skipulagðra glæpahópa að sögn Wil van Gemert, aðstoðarforstjóra Europol, en greint var frá aðgerðum lögreglu á blaðamannafundi í Haag í dag. Rannsókn málsins hefur staðið yfir í um þrjú ár.
„Sum skilaboðanna gáfu til kynna áætlanir um yfirvofandi ofbeldisglæpi þar sem nauðsynlegt var að grípa strax inn í,“ sagði Gemert.
90-100% notenda EncroChat tengjast einhvers konar glæpastarfsemi samkvæmt rannsókn lögreglu og höfðu þeir allir allir afnot af dulkóðuðum símum, alls um 60 þúsund talsins.
Í kjölfar afhjúpunarinnar hefur hollenska lögreglan upprætt 19 fíkniefnaverksmiðjur, lagt hald á mörg þúsund kíló af metamfetamíni og kókaíni og handtekið yfir 100 manns, þar á meðal tvo af eftirsóttustu fíkniefnasmyglurum landsins, að sögn Andy Kraag, yfirmanns miðlægrar rannsóknardeildar hollensku lögreglunnar.