Töldu sig ósýnilega

Franskir lögreglumenn leggja á ráðin um eina fjölmargra athafna aðgerðarinnar …
Franskir lögreglumenn leggja á ráðin um eina fjölmargra athafna aðgerðarinnar „Emma95“. Frökkum tókst að smíða hugbúnað sem kom lögreglu þar inn fyrir helgustu vé EncroChat-dulsímakerfisins sem 60.000 manns notuðu. Ljósmynd/Franska lögreglan

Norska rannsóknarlögreglan Kripos var meðal löggæsluembætta sem tók þátt í einni af umsvifamestu evrópsku lögreglurannsóknum fram til þessa dags ásamt Europol, Evrópsku réttaraðstoðinni, eða Eurojust, og lögreglu í Bretlandi, Frakklandi, Hollandi og fleiri Evrópuríkjum.

Afrakstur rannsóknarinnar, sem hófst árið 2017 og lauk 13. júní í sumar, var að eitt stærsta samstarfsnet fíkniefnasölu og -dreifingar, sem evrópsk löggæsluyfirvöld hafa komist á snoðir um, var dregið fram í dagsljósið. Í Bretlandi hafa 746 verið handteknir, samkvæmt sameiginlegri fréttatilkynningu Europol og Eurojust í dag, og 60 til viðbótar í Hollandi.

Breska lögreglan hefur enn fremur lagt hald á rúmlega tvö tonn af fíkniefnum og upphæðir í reiðufé sem nema tæpum níu milljörðum íslenskra króna en í Hollandi, í aðgerðinni Lemont, hefur lögregla tekið í sínar vörslur tíu tonn af kókaíni, 70 kílógrömm af heróíni, tólf tonn af kannabisefnum, eitt og hálft tonn af metamfetamíni og 20 milljónir evra, jafnvirði um 3,1 milljarðs íslenskra króna.

Frumstæðari en Nokia 2110

Kveikjan að öllu þessu var að frönskum rannsakendum tókst í aðgerðinni Emma95 að hakka sig inn í dulsímakerfið EncroChat. Stjórnendur EncroChat gáfu út farsíma sem hvorki höfðu símakort né voru búnir myndavél, hljóðnema eða GPS. Einu samskiptamöguleikar símanna eru VoIP-símtöl (Voice over Internet Protocol) og SMS-skilaboð, annað bjóða þeir ekki upp á. Hver sími stjórnast af tveimur stýrikerfum, annað þeirra sýnir hann sem venjulegan farsíma á farsímaneti, hitt sýnir ekki neitt. Áskrifendur töldu sig ósýnilega.

Gangverð EncroChat-síma er um 1.000 evrur, 156.000 krónur, og reikningurinn fyrir sex mánaða áskrift að kerfinu 1.500 evrur, 234.000 krónur. Talið var að notendur kerfisins hafi verið 60.000 um miðjan júní, daginn sem rannsókninni lauk með því að stjórnendur EncroChat létu þau boð út ganga til viðskiptavina sinna að lögreglan væri komin inn í kerfið ósýnilega. Einhverjir munu þá hafa skipt um símafyrirtæki.

„Umfang þessa máls, hvort tveggja í Noregi og á alþjóðavettvangi, mun hafa miklar afleiðingar,“ segir Kjell Arne Karlsen, yfirmaður rannsóknardeildar skipulagðrar glæpastarfsemi hjá Kripos í Noregi, við norska ríkisútvarpið NRK í dag í kjölfar fréttatilkynningar Europol.

Karlsen segir rannsóknina hafa leitt til handtaka hvort tveggja í Noregi og Svíþjóð. „Okkur hefur gefist einstök mynd af skipulagðri glæpastarfsemi í Noregi,“ segir Karlsen og bætir því við að EncroChat-símtækin hafi einnig verið í notkun norskra afbrotamanna.

Stærsta og mikilvægasta aðgerðin

Breska löggæslustofnunin NCA (National Crime Agency) segir þetta mesta högg gagnvart skipulögðum glæpasamtökum í áraraðir. Mörg glæpasamtök hafa verið upprætt og búið er að safna sönnunargögnum gegn glæpaforingjum sem áður voru taldir „ósnertanlegir“.

„Þetta er stærsta og mikilvægasta aðgerð af sinni tegund í Bretlandi. Aldrei áður hefur svona umfangsmikil aðgerð farið fram,“ segir Nikki Holland, forstöðumaður NCA, og bætir við:

„Með því að fylgjast með þúsundum símtækja og greina milljónir skilaboða höfum við náð að koma í veg fyrir morð, verndað almenning með því taka vopn úr umferð og gert milljónir punda upptækar.“

Fluga á vegg

Það var frönsku lögreglunni sem auðnaðist að smíða hugbúnað sem gerði evrópskum lögregluyfirvöldum kleift að gerast fluga á vegg samfélags sem taldi sig óhlerandi. Með hugbúnaðinum var lögreglu unnt að hlera yfir 100 milljónir skilaboða milli notenda EncroChat-kerfisins í rauntíma.

„Við höfum látið til skarar skríða gegn innstu koppum í búri skipulagðra glæpaverka hér í landinu,“ segir Cressida Dick, talskona lögreglunnar í London, í samtali við AP-fréttastofuna í dag. Við höfum framkvæmt handtökur og haldlagt peninga og efni sem mér er til efs að eigi sér hliðstæðu. Og þetta er bara byrjunin að mínu mati, við eigum eftir að taka marga í viðbót og við eigum eftir að ganga milli bols og höfuðs glæpahringja næstu vikur mánuði og jafnvel ár í krafti þessarar aðgerðar,“ segir Dick.

NRK

NRKII

BBC

CNN

Businessinsider

Le Monde

Dutch News

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert