Ný ríkisstjórn í Frakklandi

Jean Castex, utan við Hôtel de Matignon, embættisbústað franska forsætisráðherrans, …
Jean Castex, utan við Hôtel de Matignon, embættisbústað franska forsætisráðherrans, í dag. AFP

Jean Castex er nýr forsætisráðherra Frakklands. Emmanuel Macron forseti skipaði hann í embættið í dag eftir að hafa samþykkt afsögn Edouard Philippe forsætisráðherra fyrr í dag.

Stjórnmálaskýrendur segja upp­stokk­un á rík­is­stjórn­inni hafa legið í loft­inu um nokkra hríð en Macron hef­ur gefið það út að hann vilji breyta um stefnu til að styrkja stöðu sína fyr­ir seinni hluta kjör­tíma­bils­ins. Fleiri ráðherrabreytingar gætu verið í farvatninu og er jafnvel búist við að Christophe Castaner innanríkisráðherra láti af störfum.

Eins og svissneskur hnífur

Castex er, líkt og forveri hans, úr Repúblikanaflokknum. Hann var áður ráðgjafi Nicolas Sarkozy forseta og gegndi aðstoðarskrifstofustjórastöðu innan forsætisráðuneytisins. Hann hefur stýrt afléttingu útgöngubannsins vegna kórónuveirunnar síðustu vikur og þykir hafa staðið sig vel í því hlutverki en hann stýrði einnig neyðaráætlun vegna fuglaflensunnar á sínum tíma.

Í grein Politico segir að Castex þyki hafa eiginleika sem skort hafi á hjá forvera hans, Philippe, svo sem getuna til að höfða til fólks vítt á hinu pólitíska litrófi. Þannig eigi hann í góðu samstarfi við verkalýðsfélög, sem hafa verið Macron forseta þungur ljár í þúfu. Nægir þar að nefna mótmæli gulvestunga sem hófust eftir boðaðar skattahækkanir á bensín, og mótmæli gegn breyttum eftirlaunalögum. 

„Hann er eins og svissneskur hnífur. Hann hefur tengingar alls staðar og veit hvernig á að gera réttu hlutina á réttum tíma,“ hefur franska vikublaðið Le Point eftir Franck Louvrier, fyrrverandi ráðgjafa Sarkozy.

Báðir íhaldsmenn af sömu kynslóð

Þrátt fyrir það er bakgrunnur Castex keimlíkur forvera sínum. Þeir eru báðir íhaldsmenn af sömu kynslóð og lítt þekktir áður en þeir tóku við embætti. Slíkt kann að vekja spurningar um fyrri loforð Macrons forseta um aukna fjölbreytni í æðstu stöðum stjórnkerfisins.

Kosið verður til forseta í Frakklandi árið 2022. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum fengi Macron um 30% fylgi í fyrstu umferð en næst á eftir kemur Marine Le Pen, formaður frönsku Þjóðfylkingarinnar, með um 27,5% fylgi. Forsetakosningar í Frakklandi eru í tveimur umferðum og í seinni umferð kosið milli tveggja efstu frambjóðenda. Þegar valið stendur á milli Macrons og Le Pen segjast um 59% myndu kjósa Macron en 41% Le Pen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert