„Þetta er bara rétt að byrja“

Tine Hollevoet, upplýsingafulltrúi Europol, segir skipulagða glæpastarfsemi sívaxandi ógn við …
Tine Hollevoet, upplýsingafulltrúi Europol, segir skipulagða glæpastarfsemi sívaxandi ógn við mannlíf í Evrópu. Með EncroChat-málinu, líklega stærsta fíkniefnamáli álfunnar sem fjölmiðlar um allan heim greindu frá í gær, hafi stórsigur unnist í baráttu evrópskra löggæslustofnana og muni gögn málsins geta af sér hundruð annarra rannsókna í framtíðinni. Ljósmynd/Europol

„Þetta er gríðarlega umfangsmikið og ég get varla sagt þér nógsamlega hve mikilvægan sigur við unnum í þessu máli. Í stuttu máli hefur Europol öðlast alveg nýja sýn á uppbyggingu skipulagðrar glæpastarfsemi í álfunni,“ segir Tine Hollevoet, upplýsingafulltrúi Evrópulögreglunnar Europol, í samtali við mbl.is.

EncroChat-málið, sem Europol og fleiri löggæslustofnanir í Evrópu greindu frá í gær eftir þriggja ára rannsókn, skilaði upplýsingum sem leiddu til handtöku hátt í þúsund manns auk þess sem lögregla í Bretlandi, Frakklandi og Hollandi lagði hald á tugi tonna af fíkniefnum og reiðufé sem nemur milljörðum íslenskra króna.

„Skipulögð glæpastarfsemi er sívaxandi ógn við öryggi í ríkjum Evrópusambandsins,“ segir Hollevoet og bætir því við að löggæslustofnanir álfunnar hafi oftsinnis hin síðustu ár verið minntar óþyrmilega á starfsemi glæpagengja sem hafi lifibrauð sitt af fíkniefnum, mansali og fleiri skuggahliðum mannlegs lífs.

„Þessir hópar skirrast ekki við að beita ofbeldi, þeir eru snöggir upp á lagið að laga sig að aðstæðum og eru í raun ein mesta ógnin sem evrópsk löggæsla stendur frammi fyrir um þessar mundir. Notkun dulkóðaðra samskiptamiðla er algjör lykilþáttur í afbrotastarfsemi þessara aðila,“ segir upplýsingafulltrúinn. Starfsemin krefjist þess að fjöldi fólks um alla Evrópu eigi samskipti sem ekki þoli dagsljós, svo sem varðandi flutning fleiri tonna af fíkniefnum frá framleiðendum til heildsala og að lokum neytenda í fjölda landa.

Kveikjan að fjölda rannsókna

Hleranir lögreglunnar í EncroChat-málinu, sem kostuðu gríðarlega vinnu og skoðun meira en hundrað milljóna skilaboða milli fíkniefnasala um alla Evrópu, þar á meðal í Noregi og Svíþjóð, hafi því skilað Europol og tugum annarra löggæslustofnana ómetanlegum gögnum.

„Gögnin úr þessu máli eiga eftir að verða kveikjan að fjölda annarra rannsókna, án nokkurs vafa mörg hundruð,“ segir hún. „Fjöldi fólks hefur verið handtekinn og mikið magn fíkniefna tekið úr umferð, en þetta er bara rétt að byrja. Við höfum öðlast innsýn sem gerir okkur og öllum okkar samstarfsaðilum í Evrópu kleift að greiða skipulagðri glæpastarfsemi mörg og þung högg um langa framtíð,“ segir Tine Hollevoet, upplýsingafulltrúi Europol-lögreglunnar, um eitt stærsta, ef ekki alstærsta, fíkniefnamál Evrópu, EncroChat-málið svonefnda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert