Tilkynnt var um átta ný kórónuveirusmit í Kína í gær. Það er umtalsverð aukning frá deginum áður þegar ný tilfelli voru alls þrjú talsins. Að því er fram kemur í tilkynningu frá heilbrigðisyfirvöldum þar í landi voru viðkomandi einstaklingar með mjög væg einkenni.
Af smitunum átta voru sex greind við skimun á landamærum landsins. Hin tvö greindust í höfuðborginni, en heilbrigðisyfirvöld í Peking hafa undanfarnar vikur unnið að því að ná tökum á útbreiðslu veirunnar eftir að sýking kom upp á matarmarkaði í borginni fyrir um mánuði.
Frá 11. júní hafa greinst 334 tilfelli í borginni, en af þeim var rétt tæplega helmingur smitanna meðal starfsmanna á framangreindum markaði, Xinfadi-markaðnum. Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisstofnunum í borginni eru 98% smitanna mjög væg og líkjast í raun hefðbundinni flensu.