Kona á fertugsaldri lést eftir fall úr rússíbana í skemmtigarði í Oise í norðurhluta Frakklands.
Slysið átti sér stað um klukkan 14 síðdegis í gær. Konan, 32 ára, féll úr Formúlu 1 rússíbananum í Parc Saint-Paul garðinum. Viðbragðsaðilar voru kallaðir til samstundis en ekki tókst að endurlífga konuna.
Annað banaslys varð í sama rússíbana árið 2009 eftir því sem fram kemur á CNN.
Formúlu 1 rússíbaninn er eitt af 45 skemmtitækjum í garðinum. Börn þurfa að vera hærri en 120 sentímetrar til að geta farið í tækið.
Parc Saint-Paul opnaði að nýju 6. júní með sérstökum takmörkunum vegna kórónuveirunnar, meðal annars skylda til að nota andlitsgrímu og gæta að fjarlægðartakmörkunum.