Eftir tvo og hálfan smitlausan mánuð, gerði kórónuveiran aftur vart við sig í Færeyjum í gær. Hún greindist í einstaklingi í skimun á flugvellinum í Vágum í gær, en samkvæmt landlækni, Lars Møller, er smitið líkast til gamalt.
Persónan er engu síður „afbyrgð í sóttarhaldi“ eins og segir í Kringvarpinu.
Skimað verður fyrir mótefnum í viðkomandi og þar með kannað hvort hann sé smitandi. Ekki er gefið upp hvort þetta sé Færeyingur eða ferðamaður. Í Info segir þá að landlæknir telji ekki að viðkomandi hafi smitað aðra.
Tilfellin eru hér með samtals orðin 187 í Færeyjum en enginn hefur látist í landinu af völdum COVID-19. Síðasta smitið á undan þessu sem hér ræðir um greindist 22. apríl og þar á undan höfðu einnig nokkrar vikur liðið frá smiti.